Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis um vanhæfi Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi ráðherra, bæði koma á óvart og ekki. Niðurstaðan og ákvörðunin sé gleðiefni og jákvætt skref. Bjarni Benediktsson hafi þó ekki verið að öllu heiðarlegur í þeim orðum sem hann lét falla samhliða uppsögninni.
„Niðurstaðan kemur ekki á óvart. Alls ekki. En hversu afdráttarlaus niðurstaðan var hjá umboðsmanninum kemur mér á óvart. Maður er vanur að þurfa að lesa mikið á milli línanna en þetta var rosalega skýr niðurstaða. Það kom eiginlega meira á óvart heldur en efnislega niðurstaðan.“
Aðspurður hvort hann telji niðurstöðuna og ákvörðun Bjarna koma stjórninni í uppnám eða hvort þau hafi verið búin undir þetta svarar Björn: „Þetta hlýtur að valda einhverju uppnámi þar sem ansi margir stjórnarþingmenn og ráðherrar brugðust ansi harkalega til varna, viðhöfðu ýmiss konar orð um hversu ómálefnaleg gagnrýni það væri hjá okkur að þetta væri augljóslega vanhæfnismál. Þau þurfa að éta ofan í sig ansi stór orð og væntanlega bera ábyrgð á þeim einhvern veginn.“
Er vantraustsyfirlýsing á leiðinni í garð stjórnarinnar?
„Nei, ég held að það þurfi ekki. Hann sagði af sér. Axlaði ábyrgð og sagði af sér. Það er eins og það á að vera. En svo þarf ákveðnar samræður við hina sem voru í varnarmúrnum. Og spyrja þau hvað þeim finnst viðeigandi eða hversu auðmjúk þau eru í að taka þessum fréttum og viðurkenna sín mistök og rangfærslur.“
Þetta er kannski ekki glænýtt á Íslandi en það er ekki sjálfgefið hérna að ráðherra bregðist svona fimlega við, svo að segja?
„Nei, alls ekki. Og fyrri svona niðurstöður, Mannréttindadómstóllinn hefur ekki haft bein áhrif á stöðu ráðherra, til dæmis. Það er alveg gleðiefni að það er hlustað á umboðsmann. Og hefði mátt gera oftar.“
Að því sögðu bætir Björn því við að Bjarni hafi sent frá sér pillu í leiðinni sem hafi verið óheiðarleg og til þess fallin að rýra traust í garð umboðsmanns: „Hann fór í smá gagnrýni, ómálefnalega gagnrýni, á niðurstöðu umboðsmanns, fyrirkomulagið og aðkoma hans að báðum sölunum hafi verið nákvæmlega eins og skrítið að umboðsmaður gagnrýni aðeins seinna útboðið en ekki það fyrra. Þetta er mjög villandi og mjög óheiðarlegt af honum að segja svona, því fyrra útboðið var opið, seinna útboðið lokað. Þetta eru tvö mismunandi útboð, mismunandi framkvæmd og þar af leiðandi þarf aðkoma hans að vera mismunandi. Þannig að hann dregur dálítið úr vægi umboðsmanns og mér finnst það rýra traustið gagnvart umboðsmanni, þó að hann svo virði niðurstöðuna. Þá gerir hann það með svona biturri pillu á sama tíma, sem er bara ekki hjálplegt.“