Í kjölfar árásar Hamas á Ísrael á laugardag gáfu 30 samtök nemenda við Harvard-háskóla út sameiginlega yfirlýsingu sem hefst á svofelldum orðum: „Við, undirritaðar hreyfingar námsmanna, lítum á ísraelsk stjórnvöld sem alfarið ábyrg fyrir öllu því ofbeldi sem nú vindur fram.“ Síðan fylgir knöpp samantekt á fyrstu yfirlýsingum ísraelskra ráðamanna eftir árásina, og á sögu Ísraelsríkis undanliðin 75 ár. Yfirlýsingunni lauk á áskorun til „Harvard-samfélagsins um að grípa til aðgerða til að stöðva útrýmingu Palestínumanna.“ Undir voru rituð nöfn um 30 samtaka nemenda við skólann.
Fjöldi stjórnmálamanna lýsti hneykslan sinni á yfirlýsingunni og hópur bandarískra forstjóra fór fram á það við stjórnendur háskólans að nöfn nemendanna að baki samtökunum yrðu gerð opinber, til að fyrirtækin gætu sett þau á svartan lista og sniðgengið við atvinnuumsóknir síðar meir. Fremstur í flokki þessara forstjóra virðist hafa verið Bill Ackman, sem stýrir vogunarsjóðum.
Pallbíll íhaldshóps „doxxar“ nemendur
Á miðvikudag gerðist það að pallbíl var ekið um háskólasvæðið með myndum af einhverjum nemendanna að baki yfirlýsingunni og orðunum „Helstu gyðingahatarar Harvards“ letruðum yfir. Jason Furman, prófessor í hagfræði við Harvard háskóla, birti mynd af bílnum á X/twitter. Félagasamtök íhaldsmanna sem nefna sig „Accuracy in Media“ eða „Nákvæmni í fjölmiðlum“ sögðust standa að baki akstri bílsins, ásamt birtingu á nöfnum nemendanna á netinu.
Að birta persónulegar upplýsingar á við heimilisföng og símanúmer er aðferð sem öfgahægrihreyfingar hafa notað árum saman til að ógna og þagga niður í stuðningsfólki Palestínu, sagði nemandi við Harvard, af palestínskum uppruna, sem var að sögn CNN aðeins tilbúinn að tjá sig nafnlaust.
Forseti skólans stendur með nemendum
Nemendasamtök gyðinga við skólann, Hillel, sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæmdu aðgerðir íhaldsmannanna: „Harvard Hillel fordæmir harðlega allar tilraunir til að ógna og hræða þá sem skrifuðu undir yfirlýsingu samstöðunefndarinnar með Palestínu … við höfnum yfirlýsingu nefndarinnar með þyngstu áherslu og krefjast ábyrgðar þeirra sem skrifuðu undir hana en undir engum kringumstæðum ætti slík ábyrgð að verða að opinberum ógnum í garð einstaklinga.“
Laurence Tribe, prófessor í lögfræði við skólann, sagði að það að merkja nemendurna sem „gyðingahatara“ og setja þannig skotmark á bakið á þeim skapaði meiri hættu en það gerði gagn. Í samtali við CNN varaði hann við því að endurtaka öfgar McCarthy tímans í þágu „siðferðilegs skýrleika“.
Á fimmtudagskvöld lét Claudine Gay, forseti Harvard-háskóla, loks frá sér yfirlýsingu á myndskeiði, þar sem hún hafnaði öllum kröfum um að hegna þeim nemendum eða birta nöfn þeirra opinberlega, sem áttu aðild að yfirlýsingunni um ábyrgð Ísraels. Hún sagði skólann taka tjáningarfrelsi alvarlega.