Bjarni Már Magnússon prófessor við Háskóla Íslands er ekkert að grínast þegar hann segir að við ættum að koma okkur upp okkar eigin her. Með þátttöku allra.
„Innleiðing herskyldu myndi einnig hafa jákvæð áhrif á samfélagslegan stöðugleika. Þátttaka allra í vörnum landsins myndi auka samhug og ábyrgðartilfinningu meðal landsmanna. Slík nálgun gæti aukið samstöðu þjóðarinnar og stuðlað að sterkari og samheldnari samfélagsgerð. Að auki gæti hún skapað tækifæri til aukinnar færniþróunar og starfshæfni, þar sem einstaklingar myndu öðlast fjölbreytta reynslu og þekkingu sem nýttist þeim í framtíðinni.“
Í nýrri Moggagrein skrifar Bjarki Már.
„Með hliðsjón af reynslu Svíþjóðar og annarra Norðurlandaþjóða væri skynsamlegt fyrir Ísland að huga að upptöku herskyldu í tengslum við stofnun eigin hers. Með því að byggja á hugmyndinni um allsherjarvarnir og aðlaga hana að íslenskum aðstæðum gæti Ísland tryggt öflugt og sjálfbært þjóðaröryggi. Slík stefnumótun myndi ekki aðeins styrkja öryggi landsins heldur einnig efla samfélagið í heild og gera það betur í stakk búið til að takast á við framtíðaráskoranir í varnar- og öryggismálum.“
Mikið efast ég um að við getum, ein og sér, tryggt þjóðaröryggi fari allt á versta veg í heiminum.
„Ef Ísland myndi stofna eigin her er einn kosturinn í stöðunni að innleiða herskyldu sem næði til allra landsmanna, með mismunandi útfærslum eftir hæfni og áhugasviði viðkomandi.“
Þarna eru engar undantekningar. Öll sem eitt.
„Með vaxandi öryggisógnum í Evrópu, breyttu alþjóðlegu öryggislandslagi og aukinni spennu í Norður-Atlantshafi og á norðurskautinu er ljóst að Ísland getur ekki lengur reitt sig í jafn miklum mæli og áður á varnir annarra ríkja. Þrátt fyrir að Ísland hafi hingað til ekki haldið úti eigin her er ljóst að samfélagið þarf að vera betur undirbúið en nú er til að mæta margvíslegum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Ræða þarf málaflokkinn fordómalaust og takast á við ýmis tabú.“