„Hér er ekkert og ég meina ekkert“ – Foreldrar hvetja börn sín til að koma undir sig fótunum utan Íslands

Teitur Atlason lagði spurningu fyrir hópinn Fjármálatips á Facebook á dögunum: hvernig það væri fyrir eignalaust par með tvö börn, sem hefur í fimmtán ár búið erlendis, að flytja aftur til Íslands. Það má kannski líta á þetta sem eins konar afmælisspurningu, nú þegar einmitt fimmtán ár eru liðin frá hruni.

„Við erum að plana að flytja heim á næsta ári og eigum ekkert, erum að leigja hér úti og vorum að hugsa okkur að flytja ekki með búslóð heldur bara selja allt og verðum í rauninni að byrja frá grunni á Íslandi.“ Hann tók fram að líklega yrðu þau bæði í láglaunastörfum til að byrja með. Hann geri sér grein fyrir að leigumarkaðurinn „er martröð á Íslandi“ en eitthvað sé samt að toga þau heim. Fram kemur að fjölskyldan býr nú í Skotlandi.

„Ekki flytja hingað aftur“

Meðlimir hópsins sátu ekki á svörum: „Myndi bara sleppa þessu alveg,“ sagði einn notandi og uppskar 54 læk. „Ef þið sjáið fram á að vera í láglaunastörfum … þá kæmi ég ekkert heim. Hér lifir enginn af láglaunastörfum,“ sagði annar og uppskar 36 læk. Ekki flytja heim, segir enn einn. „Myndi vera í UK allavega á meðan þessi verðbólgu og vaxtastormur er í gangi á Íslandi,“ má lesa í svörum notenda, og „Þið ættuð að hugsa ykkur vel um áður en þið ákveðið að flytja á skerið. Hér er ekkert og ég meina ekkert. Viðbjóðsleg dýrtíð og ömurlegt í alla staði. Oft hefur verið slæmt hér en ég held að metið sé að verða slegið.“

Teitur spurði sérstaklega um Búseta: „ég var að velta því fyrir mér hvort einhver væri með reynslu á leigufélögum eins og Búseta til dæmis?“ Nokkrir notendur víkja máli sínu sérstaklega að þeirri spurningu. „Við fluttum FRÁ Íslandi í fyrra,“ segir einn, „því við fengum nóg af dýrtíðinni þar. Leigðum hjá Búseta og það var FOKdýrt, lendir aftast í röðinni á nýju númeri nema mögulega kaupa þig inní nýtt sem við gerðum.“

Hópnum Fjármálatips tilheyra 43 þúsund notendur. Eftir að móttaka ofangreind svör og fleiri þar deildi Teitur samskiptunum í opinni færslu á Facebook. Þar bætast fleiri athugsemdir við. „Þarna eru (því miður) samskonar ráðleggingar og ég myndi koma með: EKKI flytja hingað aftur,“ segir Einar nokkur. Vésteinn Valgarðsson bætir við: „En þetta er bara satt, því miður. Ég mundi kannski gera það sama ef ég væri í þeirra sporum: stefna heim því römm er sú taug og þannig, en það er ekki þar með sagt að það sé skynsamlegt í sjálfu sér.“ Karl nokkur bætir við þá athugasemd: „Búið alls 35 ár erlendis. Sakna einskis frá Íslandi.“

Enginn flokkur vill góðan leigumarkað

„Enginn flokkur á þingi hefur minnsta áhuga á að koma upp skikkanlegum leigumarkaði á Íslandi, eins og til er í nágrannalöndum, ekki einu sinni flokkurinn sem hefur kennt sig við norrænan kratisma. Það er hins vegar ekkert flókið að lækka húsaleigu um helming og tryggja að fólki sé ekki hent út, þótt það tæki tíma, þarf bara pólitískan vilja,“ skrifar Einar Steingrímsson, sem hefur, eins og Teitur, nokkra reynslu af því að búa í Skotalndi, þar sem hann er prófessor í stærðfræði.

Þegar Baldur Guðmundsson spyr: „Fyrir utan þessa tímabundnu dýfu síðasta árið, höfum við einhvern tíma haft það betra á Íslandi? Og hvar í heiminum eru lífsgæðin meiri?“ svarar Einar á móti: „Lífsgæði á Íslandi eru að meðaltali stórkostlega mikil. Þeim mun skammarlegra hvað fólkið sem minnst hefur, en vinnur margt mikilvægustu störfin, býr við slæm kjör.“

Þorgrímur skrifar: „Svona í fullri hreinskilni, þá ræði ég það við krakkana mína að það sé skynsamlegast að koma undir sig fótunum, ekki á Íslandi. Strákurinn er í háskóla í Berlín og stelpan er nú bara 11 ára en ég hef samt nefnt það við hana. Við eigum ættingja í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi sem eru boðnir og búnir til að aðstoða og allt það. Ég get ekki mælt með því að fólkið flytji hingað til lands aftur. Bara alls ekki.“

Bætur á við hálfa húsaleigu

Síðasta athugasemd við færsluna, þegar hún er skoðuð upp úr miðnætti aðfaranótt laugardags, er frá Eyrúnu sem segist hafa látið sig dreyma um að flytja til Íslands í rúm þrjú ár en verði bara þunglyndari eftir því sem fram líða stundir og hún horfir upp á stöðuna versna. Hún segist vera föst erlendis vegna heilsubrests og almannatryggingaslags. Örorkubætur hennar samsvari „rúmum helmingi af lægstu finnanlegu húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí