Netanyahu útilokar vopnahlé og segir mannfall óbreyttra borgara vera á ábyrgð Hamas

Hafi einhver gert sér vonir um að viðbrögð Ísraels við árásum Hamas þann 7. október síðastliðinn yrðu hófstillt, afmörkuð eða hnitmiðuð, þá varð ávarp sem Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, flutti á mánudag ekki til að ýta undir þær vonir.

Í ávarpinu tók Netanyahu djúpt í árinni um yfirstandandi átök. Hann sagði þau vera stríð milli „hins siðmenntaða heims“ og villimennsku eða „barbarisma“. Hann sagði stríðið fela í sér „tímamót leiðtoga og þjóða“ sem þurfi að gera upp við sig hvort þau eru „fús að berjast fyrir framtíð vonar og fyrirheita eða gefast upp fyrir harðstjórn og skelfingu.“

„Öxulveldi illskunnar“ sótt í endurvinslu

Hver sem vonast eftir friði á okkar tímum getur þó ef til vill fundið einhverja huggun í því að ræðan virkaði að nokkru leyti eins og endurflutningur á gömlu efni frekar en beinlínis innblásin. Þannig sagði Netanyahu Hamas vera hluta af „öxulveldi illskunnar,“ sem Íran væri að móta. Þetta hugtak, „öxulveldi illskunnar“, verður brátt aldarfjórðungs gamalt en hefur sjaldan heyrst frá því að bandarísk stjórnvöld tóku sjálf að líta á viðbragð sitt við hryðjuverkaárásunum 2001, „stríðið gegn hryðjuverkum“ sem mistök.

Netanyahu klifaði á hugmyndinni um mörk siðmenningar og villimennsku. Hann sagði meðal annars að í baráttunni við þetta öxulveldi illskunnar berjist Ísrael „við óvini siðmenningarinnar sjálfrar.“ Sigur á þessum óvini hefst, sagði forsætisráðherrann, með siðrænum skýrleika, „að þekkja muninn á góðu og illu, á réttu og röngu.“ Hann sagði að það fælist meðal annars í að gera „siðferðilegan greinarmun á morðum saklausra að yfirlögðu ráði og því óviljandi mannfalli sem fylgir hverju lögmætu stríði, jafnvel réttlátasta stríði.“

Að ásaka Ísrael er að styðja Hamas

Að því sögðu eggjaði Netanyahu áheyrendur til að draga Ísrael ekki til ábyrgðar fyrir það mannfall sem þegar hefur orðið og líklegt er að verði meðal óbreyttra borgara á Gasa, enda sé þar ekki við Ísrael að sakast, sem geri „allt sem það getur til að forða óbreyttum palestínskum borgurum frá skaða“. Hamas sagði hann að geri aftur á móti „allt sem þau geta til að óbreyttir palestínskir borgarar verði fyrir skaða.“

Netanyahu sagði það vera stríðsglæp Hamas-liða, að nota „palestínska borgara sem mannlega skildi.“ Hann sagði að gera þyrfti ljóst að það væri „ekki aðeins siðlaust ógnarbragð heldur gagnslaust að auki.“ Það yrði aðeins gert með því að draga Ísrael ekki til ábyrgðar:

„Vegna þess að svo lengi sem notkun Hamas á palestínskum mannlegum skjöldum leiðir til þess að alþjóðasamfélagið kennir Ísrael um, mun Hamas halda áfram að beita því ógnarráði og það munu fleiri gera. Hamas mun halda áfram að nota kjallara sjúkrahúsanna í Gasa sem stjórnstöðvar fyrir hið viðamikla ógnar-gangnanet sitt. Þau munu halda áfram að nota moskur sem víggirtar bækistöðvar og vopnageymslur. Þau munu halda áfram að ræna eldsneyti og mannúðaraðstoð frá aðstöðu Sameinuðu þjóðanna.“

Vopnahlé væri uppgjöf fyrir „villimennsku“

Loks sagðist forsætisráðherrann vilja gera ljóst hver afstaða Ísraels væri til vopnahlés. Í því samhengi skírskotaði hann bæði síðari heimsstyrjaldar og stríðs Bandaríkjanna „gegn hryðjuverkum“ í byrjun þessarar aldar:

„Rétt eins og Bandaríkin hefðu ekki fallist á vopnahlé eftir árásina á Pearl Harbor eða eftir hryðjuverkárásina 11. september, mun Ísrael ekki fallast á að stöðva stríðsátök við Hamas eftir hinar skelfilegu árásir þann 7. október. Ákall um vopnahlé er ákall eftir því að Ísrael gefist upp fyrir Hamas, gefist upp fyrir hryðjuverkum, gefist upp fyrir villimennsku. Það mun ekki gerast.“

Að síðustu vísaði Netanyahu til Biblíunnar: „Dömur og herrar,“ sagði hann, „Biblían segir að friður hafi sinn tíma og stríð hafi sinn tíma. Nú er tími fyrir stríð.“ Þá endurtók hann orðfærið um línuna á milli siðmenningar og villimennsku og sagði Ísrael myndu berjast þar til sigur vinnst.

Ávarpið má finna hér.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí