„Hinar hrikalegu afleiðingar sprengjuárása Ísraels og ólöglegrar aflokunar Gasa knýja skiljanlega fjölda fólks til að mótmæla í þágu réttinda Palestínumanna. Samt sem áður hafa yfirvöld í fjölda Evrópuríkja, án lögmætis, takmarkað réttinn til mótmæla. Aðgerðir þeirra ná frá því að beina spjótum sínum að tilteknum slagorðum, palestínskum fánum og táknum, yfir í að beita mótmælendur lögregluofbeldi og handtökum. Í sumum tilfellum hafa mótmæli verið alfarið bönnuð.“
Þetta sagði Esther Major, yfirmaður rannsóknasviðs Amnesty International í Evrópu, samkvæmt tilkynningu sem samtökin létu frá sér á föstudag.
„Í Þýskalandi hafa stjórnvöld til dæmis bannað yfirgnæfandi meirihluta mótmælaaðgerða í þágu réttinda Palestínumanna og á þriðjudag úrskurðaði stjórnlagadómstóll í Frakklandi að ríkið gæti ekki bannað í heilu lagi öll mótmæli til stuðnings Palestínumönnum,“ var haft eftir Major.
„Í Bretlandi vakti það áhyggjur að ráðherrar létu frá sér erindi sem ætlað væri að hafa áhrif á stjórnendur innan lögreglunnar eða yrði beitt af skólum og stjórnendum háskóla sem forsendur til að setja tjáningarfrelsi og félagafrelsi óhófleg takmörk. Amnesty International hefur skorað á allt stjórnmálafólk að sýna ábyrgð í tungutaki sínu og forðast tal sem veldur sundrungu.“