Sagan af því þegar Davíð nánast gaf auðfólki allan kvóta Reykvíkinga

Spilling 26. okt 2023

Í bókinni Eimreiðarelítan: Spillingarsaga rekur Þorvaldur Logason meðal annars sölu Davíðs Oddssonar á Bæjarútgerð Reykjavíkur, sem á endanum skilaði borgarbúum litlu ef nokkru þrátt fyrir allan þann mikla kvóta sem Bæjarútgerðin fékk úthlutaðan. Þorvaldur segir í bókinni að þetta hafi verið fyrsta einkavæðingin að hætti Thatcher og að mörgu leyti fyrirmynd annarra sem fylgdu á eftir. Gríðarlegar eignir almennings voru gefnar auðfólki og einkavinum Davíðs og Eimreiðarklíkunnar og því haldið fram að verið væri að létta byrðum af almenningi. Þegar í reynd var verið að ræna samfélagið. Ef Reykjavíkurborg ætti enn kvótann sem Davíð gaf vinum sínum væru ekki efnahagslegar þrengingar í borginni.

Hér er birtur kaflinn um einkavæðing BÚR úr bókinni Eimreiðarelítan: Spillingarsaga með góðfúslegu leyfi höfundar:

Einkavinavæðingin, valdasóknin

Árið er 1983. Hinn ungi leiðtogi elítunnar, Davíð Oddsson, hefur sigrað með glæsibrag sínar fyrstu stóru kosningar og er sestur í borgarstjórastólinn í Reykjavík með meirihlutann á bak við sig. Hann hefur náð því embætti sem talið er næst valdamest á landinu. Margir biðu spenntir – hver verða hans fyrstu verk? Samkvæmt stefnuskránni sem uppreisnarmenn frjálshyggjunnar höfðu gefið út, átti að minnka báknið og sigra skrifræðið og því vöktu fyrstu skrefin furðu.

Við skulum skoða hið fyrra, þjóðþekkta og umdeilda einkavæðingu BÚR, Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Hið síðara var stórmerkilegt en að mestu gleymt mál á sviði fjölmiðlunar sem reyndist merkilegur fyrirboði um þau miklu átök um fjölmiðlayfirráð yfir Íslandi sem hafa staðið samfellt síðan.

Upphafið að einkavæðingu nýfrjálshyggjunnar

Eimreiðarelítan hefur haldið því fram að hin sögulega einkavæðing Bæjarútgerðar Reykjavíkur, BÚR, hafi verið upphafið að einkavæðingunni miklu sem þeir stóðu að á árunum frá 1983-2008. Það er því vel við hæfi að skoða söluna á þessu öfluga sjávarútvegsfyrirtæki sem þá var í eigu borgarbúa. 

Davíð þykir strax einráður í stóli borgarstjóra, jafnvel gagnvart eigin borgarfulltrúum. Óðaverðbólga og fjármálaóstjórn ríkir í landinu undir stjórn Gunnars Thoroddsen. Flestöll sjávarútvegsfyrirtæki eru í vandræðum. BÚR hafði staðið í dýrum fjárfestingum og var rekið með miklum halla. Aðgerðir voru yfirvofandi, það vissu allir.

Engu að síður kom flatt upp á marga, jafnvel fulltrúa í stjórn borgarinnar, þegar Davíð Oddsson rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra í staðinn, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu.

Framkvæmdastjórarnir sem fyrir voru nutu einróma stuðnings starfsmanna og sjómanna til áframhaldandi starfa en það dugði ekki til. Annar þeirra, Björgvin Guðmundsson, forystumaður af lista Alþýðuflokksins, sagði í viðtölum að hann hefði talið að pólitískar atvinnuofsóknir væru liðin tíð, en spáði fyrir um að þetta yrði stefnan næstu árin. Hinn framkvæmdastjórinn, Einar Sveinsson (ekki Engeyjarhöfðinginn), taldi ráðninguna vanvirðu við bæði starfsreynslu, árangur og stuðning starfsmanna (Morgunblaðið, 16. október 1983). En ráðningin fór engu að síður í gegn og Davíð virtist hafa gengið svo langt að hlutast til um ráðningar innan fyrirtækisins, allt niður í deildarstjóra. Af því sem gerðist næstu áratugina má leiða að því líkur að þau afskipti hafi verið til þess að koma að pólitískum vildarvinum.

Einkavæðingarstrategía Thatcher

Í einkavæðingarstrategíu Margrétar Thatcher er ákveðið mynstur valdsmisnotkunar sem skiptir miklu máli varðandi alla stjórnmálasögu Davíðs. Thatcher beitti þeirri herfræði, áður en hún einkavæddi verðmæt fyrirtæki, að koma pólitískum vildarvinum fyrir í stjórn og dæla inn í þau opinberu fé til þess að gera þau verðmætari. Þetta mynstur er þráður í öllum stjórnmálaferli Davíðs, allt til einkavæðingar bankanna 2002 og jafnvel lengra.

Til að gera mjög langa sögu örstutta, þá sameinaði Davíð og Eimreiðarelítan BÚR og einkafyrirtækið Ísbjörninn, sem var að mestu í eigu valdamanna Sjálfstæðisflokksins og Kolkrabbans í Reykjavík og átti við mikla fjárhagsörðugleika að stríða, stefndi jafnvel í gjaldþrot. Áður en af sameiningu varð seldi Davíð tvo togara út úr fyrirtækinu (á grófu undirverði að mati pólitískra andstæðinga). Hann dældi peningum inn í BÚR úr borgarsjóði og hreinsaði burt skuldir. Eignir Ísbjarnarins voru samkvæmt úttektum fjölmargra aðila, gróflega ofmetnar, en eignir BÚR vanmetnar. Kvótinn sem síðar varð helsta eign fyrirtækisins metinn nálægt núlli – en kvóti BÚR var töluvert meiri en Ísbjarnarins. Kvótinn yrði í dag metinn á milljarða jafnvel þótt togararnir tveir sem seldir voru stuttu fyrir sameiningu væru ekki taldir með. (Björgvin Guðmundsson, Morgunblaðið, 19. júní 2004).

Nýja fyrirtækið fékk nafnið Grandi og varð við sameiningu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Á það minnti Davíð reglulega í klókum upphafningaráróðri til þess að kæfa háværa gagnrýni á spillinguna í kringum málið. Að öllu eðlilegu hefði átt að hlutafélagavæða fyrirtækið og selja í opnu ferli hæstbjóðanda. Nýir eigendur hefðu síðar getað tekið ákvörðun um að sameinast Ísbirninum. Í staðinn unnu Davíð og elítan með leynd á bak við borgarstjórn, minnihlutann og starfsfólkið. Um áramótin, tveimur mánuðum seinna, fengu 180 manns uppsagnarbréf, verkstjórar, eftirlits- og skrifstofufólk og starfsfólk saltfiskvinnslu BÚR. Fjöldi þeirra voru verkakonur sem áttu erfitt með að fá vinnu annars staðar. Þjóðlíf lýsir viðbrögðum einnar þeirra, Díönu Ragnarsdóttir, við uppsögninni.

… Ég bara brotnaði niður og fannst ég einskis virði. Þeir hefðu svo vel getað sagt okkur að við ættum von á uppsagnarbréfi út af þessari endurskipulagningu … Það var enginn öruggur um endurráðningu … Mér fannst verið að kúga okkur. (Þjóðlíf, 1986, 1. maí)

Að lokum voru 90 manns endurráðin. Samstarfið var ekkert. Áfallið algjört. Síðasti dagurinn var ömurlegur. Konurnar gátu ekki unnið, þær bara stóðu í smáhópum og töluðu saman. Spennan var svo mikil og reiðin. Svo tóku þær sig saman og öskruðu, allar í kór. (Sama heimild)

Viðbrögð pólitískra andstæðinga voru hörð og þeir lýstu sameiningunni ýmist sem „ríkisfrjálshyggju“ eða í eitruðum orðaleikjum eins og „svindlaradabbíu“ með augljósri vísun í nafn borgarstjórans (orðið er úr skáldsögu eftir Halldór Laxness).

Einkavæðing Granda

Granda átti svo að selja, en hverjum? Dreifa átti valdinu til einstaklinga, samkvæmt hugsjónum nýfrjálshyggjunnar en hverjir voru þessir einstaklingar? Hugsjónin hljómaði í fjölmiðlum eins og öll þjóðin ætti kost á að kaupa hlut í Granda en svo var ekki.

Það kom í ljós að Davíð og meirihluti sjálfstæðismanna ætlaði sér að handvelja þá einstaklinga sem fengju að kaupa Granda án þess að nokkur annar fengi þar að koma að eða bjóða í. Eins og gerðist stundum síðar þá barst óvænt tilboð, bara sí svona. Í sambærilegum einkavæðingafléttum elítunnar síðar voru það kannski símtöl eða jafnvel bréf og af því að tilboðið óvænta í stórfyrirtækið var svona stórágætt var um að gera að taka því bara strax. Í forsvari þeirra sem gerðu tilboðið óvænta voru önnur fyrirtæki innvígðra sjálfstæðismanna í Vesturbæ Reykjavíkur, Hvalur hf., Venus hf. Og Hampiðjan. Þau voru svo í samstarfi við sjálft Sjóvá, höfuðvígi Engeyjarættarinnar. Hlutinn í Granda fengu óvæntu tilboðsgjafarnir á óvæntu gjafverði. Á svo hagstæðu verði að Reykjavíkurborg fékk þegar allt var lagt saman sáralítið fyrir eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Innvígðir auðmenn Sjálfstæðisflokksins högnuðust gríðarlega – bæði í skilningi valda og fjármagns (Hilmar Viktorsson, 1991, 5. mars).

Þetta varð síðan reglan með valda- og verðmeiri ríkisfyrirtæki sem voru einkavædd í valdatíð Eimreiðarelítunnar: Elítan valdi vandlega innvígða flokksmenn og afhenti þeim meirihlutaeign á miklu undirverði (m.v. Markaðsverð skömmu síðar t.d.) ef til vill eftir að hafa selt minnihluta til almennra fjárfesta, einnig á undirverði.

Þegar þetta er skrifað fjörutíu árum seinna er Bjarni Benediktsson að selja Íslandsbanka á svipaðan hátt á undirverði, ýmist á yfir 50% afslætti til almennra fjárfesta eða til sérstaklega útvalinna.

Allt ferlið í Granda var í langan tíma unnið á bak við tjöldin, meira að segja á bak við aðra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Það var lýsandi fyrir leyndina og pukrið að starfsmenn fyrirtækisins fengu ekkert að vita og lýstu t.d. fiskverkunarkonurnar því að þær hefðu verið skikkaðir til að mæta skyndilega á nýjan vinnustað (Ísbjarnarins fyrrum) við allt aðrar og verri aðstæður, með litlum fyrirvara. Sameiningunni var haldið leyndri á meðan Davíð stýrði málinu eftir eigin plönum (einkenni elítuspillingar). Valdinu sem átti að dreifa til einstaklinganna var dreift til vel valinna einstaklinga, pólitískra vildarvina og fékk upp frá því í daglegu tali nafnið einkavinavæðingin.

Formlega gátu Davíð og elítan haldið því fram að þeir hefðu í anda hugsjóna nýfrjálshyggjunnar minnkað völd sín og afhent einkaaðilum. En Davíð og elítan voru í raun að byggja upp völd flokksins í viðskiptalífinu og eigin völd innan Sjálfstæðisflokksins.

Síðar sameinaðist Grandi stórútgerð Haraldar Böðvarssonar á Akranesi í þeirri valdasamþjöppun í sjávarútvegi sem fram undan var. Brynjólfur Bjarnason var skyndilega orðinn stjórnandi stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins og elítan, ungir menn, komnir með öflugan bakhjarl í Vesturbænum.

Einkavæðing BÚR átti sér stað á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn var í samráði við Framsóknarflokkinn að vinna að þeim stórsögulega atburði að koma á því sem nú er þekkt sem kvótakerfið. Upphafinu að einkavæðingu auðlindanna í kringum Ísland. Þá þegar var byrjað að vinna að því í helmingaskiptasamráði að breyta lögum landsins og gera veiðiréttinn við Ísland að einkaeign.

Einkavæðing BÚR fól í sér stef sem urðu fyrirboði um valdbeitingu Davíðs og Eimreiðarelítunnar fram að Hruni. Fyrst opinská misnotkun veitingavaldsins, þar sem lykilmönnum elítunnar var komið fyrir við stjórn fyrirtækisins, svo elítuspilling þar sem upplýsingum og áformum var haldið leyndum eins lengi og mögulegt var, gagnvart pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og jafnvel innanflokks í Sjálfstæðisflokknum. Því næst fyrirgreiðsluspilling þar sem útvaldir elítumenn og innherjar fengu að hagnast þvert á frjálsan markað og hagsmuni borgaranna.

Í gegnum slíka einkavinavæðingu uxu völd Davíðs og valdaelítu flokksins jafnt og þétt, bæði í stjórnmálum og atvinnulífi fram að Hruni. Sú misnotkun opinbers valds sem Davíð og flokkurinn voru ber að við einkavæðingu BÚR, var eins og mörg önnur spilling í landinu – nokkuð augljós þeim sem vildu horfast í augu við hana en það voru ef til vill ekki svo margir, hvorki þá né síðar. Spillingin var eins skýr og helmingaskiptaspillingin hafði lengi verið en samt refsuðu borgarbúar Sjálfstæðiflokknum ekki fyrir hana í kosningum. Þvert á móti. Vinsældir Davíðs jukust, dag frá degi. Aðhald kjósenda með spillingu reyndist lítið. Þeir kusu flokkinn samt, kannski í von um ágóða eða til þess að tryggja sig í liði með þeim sterka. Davíð og Eimreiðarelítan höfðu hreint meirihlutavald í borgarstjórn í átta ár, frá árinu 1982 til 1990 þegar Davíð tók við embætti forsætisráðherra. Slíkan meirihluta gátu Davíð og Eimreiðarelítan aldrei stuðst við síðar.

Ákvarðanir Davíðs í borgarstjórn hljóta því að teljast einn besti vitnisburðurinn á öllum ferli elítunnar um það hvernig hún taldi réttlætanlegt að beita opinberu valdi sínu. Einkavinavæðing BÚR var þó líklega grófasta dæmið, kannski ásamt stofnun Ísfilm – en það verður tekið fyrir í næstu köflum þegar við kynnum til sögunnar fjölmiðlavöld elítunnar og upphafið að langvarandi ásókn elítunnar í allsherjarvöld yfir fjölmiðlum landsins.

Myndin er af Eimreiðarklíkunni. Hringur eru dregnir utan um Davíð Oddsson og Brynjólf Bjarnason.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí