Segir einokun skipafélagana glæpastarfsemi

Spilling 2. okt 2023

„Stjórnvöld verða að grípa í taumana, stöðva þessa glæpastarfsemi og standa með þjóðinni í stað þess næra spillinguna með þögn og aðgerðaleysi,“ skrifar Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis í nýjasta tímarit félagsins.

„Eimskip og Samskip hafa verið sektuð vegna brota á samkeppnislögum,“ skrifar Þórarinn. „Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins kemur fram hvernig félögin hafa stórskaðað hagsmuni almennings með því að stunda glæpsamlegt samráð um innflutning á vörum til landsins. Slíkt samráð bitnar illa á hagsmunum neytenda í landinu. Þessi skipafélög hafa með hátterni sínu skaðað þannig neytendamarkað, stuðlað að hærra vöruverði í landinu og grafið undan trausti í samfélaginu með spilltum stjórnunarháttum. Sterk rök eru fyrir því að afnema þá einokunarstöðu sem þessi skipafélög eru í og opna fyrir samkeppni í skipaflutningum til landsins.

Þessi græðgi, virðingarleysi fyrir almenningi og lágur siðferðisþröskuldur í viðskiptum skipafélaganna, ber vitni um þá spillingu sem ríkir undir yfirborðinu í íslensku viðskiptalífi. Stjórnmálin eru þar ekki undanskilin því viðbragðsleysi og þögn ríkisstjórnarinnar er sláandi í eins afdrifaríku spillingarmáli og þessu. Þá standa fyrir áætlanir Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnarinnar að leggja niður Samkeppniseftirlitið með því að sameina það við aðra stofnun. Það er með sama hætti gert og þegar stjórnvöld lögðu niður embætti Skattrannsóknarstjóra eftir fjármálahrunið með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina þegar skattaeftirlit er veikt en síðan 2013 hefur skattbyrði vegna launatekna haldið áfram að hækka á meðan skattbyrði fyrirtækja hefur lækkað. Eins var farið með Þjóðhagsstofnun og þá eru uppi áform um að leggja Bankasýsluna niður sem viðbrögð vegna sölunnar á Íslandsbanka. Með því að veikja eftirlit með samkeppni hér á landi er verið að stuðla að spillingu í viðskiptum á Íslandi. Með því að veikja eftirlitsstofnanir er í raun verið að skipta verðmætum þjóðarinnar á einokunarmarkaði milli valinna einstaklinga, flokksgæðinga og fyrirtækja þeirra. Almenningur skal éta það sem úti frýs og greiða fyrir spillinguna. Íslendingar búa við fákeppni, fyrirgreiðslupólitík og veikar eftirlitsstofnanir; greiða fyrir með hærra vöruverði og háu vaxtastigi. Undanfarin misseri höfum við orðið vitni að mikilli spillingu og milljarðagróða þeirra sem fá símtal á kvöldin um að Íslandsbankasteikin sé tilbúin á grillinu.

Ríkisstjórnin verður nú að taka í taumana og bregðast við, efla eftilitsstofnanir þjóðarinnar svo um munar í stað þess að veikja þær, viðurkenna spillinguna sem grasserar undir niðri og stöðva aðförina gegn almenningi. Ríkisstjórnin veit jafnvel og almenningur að hér ríkir spilling. Hvar annarsstaðar en í spillingarlandi eru eftirlitsstofnanirnar lagðar niður svo hægt sé að fela spillinguna og veikja lýðræðið? Allir vita hverjar afleiðingarnar af því eru. Nauðsynlegt er að gera lagabreytingar til að verja lýðræðið gegn spillingunni og siðferðisbrestum þessara fyrirtækja og einstaklinga sem ræna þjóðina og vinna að því að skemma samfélagið. Þeir einstaklingar sem standa að þessari spillingu þurfa að sæta persónulegri ábyrgð samkvæmt lögum.

Faxaflóahafnir sf. er samlagsfélag um rekstur hafna Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar og Skorradalshrepps. Almenningur á suðvesturhorni landsins á Faxaflóahafnir. Þessi sveitarfélög ættu að þrýsta á stjórnvöld, vegna hagsmuna almennings, að ríkisstjórnin rjúfi einokunarstöðu þessa skipafélaga, uppræti spillinguna sem þarna ríkir og bjóði öðrum útlendum skipafyrirtækjum að sigla með vörur til landsins. Viljum við ekki viðskiptafrelsi og heilbrigða samkeppni í stað einokunar? Það verður að vera til staðar öflugt Samkeppniseftirlit, stofnun sem fylgist með starfsemi fyrirtækjanna svo almenningi verði ekki boðið upp á maðkað mjöl áfram. Tryggja verður að einokun Eimskips og Samskipa hafi nú runnið sitt skeið á enda,“ segir formaður Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí