„Maður er hreinlega sorgmæddur eftir að hafa fylgst með umfjöllun um „afsögn“ Bjarna. Þvílíkt söguleysi,“ skrifar Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi. „Það er bara eins og síðasta eina og hálfa árið hafi ekki átt sér stað. Á RÚV er þetta kölluð besta afsögn ársins í menningarþætti. Í sérstökum aukafréttatíma er látið eins og Bjarni Benediktsson hafi tekið risavaxið og sögulegt skref að segja af sér og dragi þannig nýja siðferðislínu fyrir íslenskt samfélag. Ekki einu orði vikið að því einu og hálfa ári sem er hér að baki. Mótmæli almennings strokuð út og reyndar bara látið í allri umfjölluninni eins og almenningur sé ekki hluti af stjórnmálunum og allavega ekki hluti af neinu samtali um stjórnmálin.“
„Til þess að mála upp fjármálaráðherra sem stjórnmálamann sem er svo umhugað um traust á kerfinu og stofnunum þá þarf að gleyma því hvernig ríkisendurskoðandi hefur verið niðurlægður í þessu máli,“ skrifar Atli á Facebook. „Ríkisendurskoðandi hefur hlaupið á eftir hagsmunum ráðherra og neitað að viðurkenna að ráðherra beri nokkra ábyrgð. Ríkisendurskoðandi hefur meira að segja tekið að sér að munnhöggvast við stjórnarandstöðuþingmenn. Hann lét það líka vera sitt skítaverk að saka þingmenn í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd um trúnaðarbrest. Það er sem sagt búið að rústa trúverðugleika Ríkisendurskoðanda til að forða Bjarna frá ábyrgð.“
Og áfram heldur Atli: „Til þess að mála fjármálaráðherra upp sem mann mikils siðferðis hefur verið þvælt og ruglað með svokallað armslengdarhugtak og þannig grafa undan lögum. Það er engin armslengd í lögum um sölu ríkiseigna. Aftur, það er engin armslengd í lögum um sölu ríkisfyrirtækja. Armslengdin hefur með Bankasýsluna að gera og varðar eigendastefnu ríkisins. Svona hefur í tilraunum til að bjarga ráðherra verið grafið undan lögum. Það hefur verið skáldað upp einhver þvæla um lög sem eru mjög einföld; hvað ráðherra má gera, hver er ábyrgð ráðherra, hvernig á ráðherra að gera hluti og hverja á að hafa með í ferlinu.
Til þess að mála ráðherra upp sem snilling í afsögnum og varnarmann íslenskrar stjórnsýslu þarf að gleyma FME og linnulausum kröfum stjórnarliða um að bankastjóri Íslandsbanka verði vikið.
Það þarf að gleyma því hvernig staðið hefur verið í vegi fyrir rannsókn á málinu frá fyrsta degi. Það eru enn engin merki um rannsóknarnefnd á vegum Alþingis.
Það þarf að gleymna því hvernig ráðherra hunsaði allar viðvaranir. Lét eins og þær hefðu ekki borist honum.
Horfa framhjá því að bæði fjármálaráðherra og flokksfélagar hans hafa öll talað niður álit umboðsmanns og túlkað raunar sem hvítþvott sem þau séu ósammála en svona að herramannshætti verði að virða umboðsmann. Sama umboðsmann og þau telja ekkert skilja í málinu. Það er bara svo mikið prinsip að virða umboðsmann að þau hafa leikið sér að því að skálda ofan í umboðsmann.
Söguleysið er algjört! Til hvers á almenningur að lesa fjölmiðla sem hafa svona lítinn áhuga á þátttökulýðræðinu. Samtalið á RÚV sérstaklega var við RÚV, vini RÚV, Bjarna og fólk í kringum Bjarna. Spurning svo hvernig á að ná til almennings…. jú, Voxpop! Alls ekki minnast á þátt almennings í að málið var ekki grafið ofan í skúffu.“