Allir eru ósáttir við hjásetu Íslands – nema kjósendur Sjálfstæðisflokks og Miðflokks

Yfir 70 prósent aðspurðra segjast fremur eða mjög óánægð með það hvernig Ísland ráðstafaði atkvæði sínu þegar kosið var um ályktun um vopnahlé á Gasa á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna undir síðustu mánaðamót. Þetta kemur fram í skoðanakönnun Maskínu, sem birt var í dag. Einungis 13 prósent sögðust mjög eða fremur ánægð, rúm 16 prósent svöruðu „í meðallagi“.

Meiri óánægja meðal kvenna en karla

Ísland ráðstafaði atkvæði sínu með því að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni og taka þannig ekki undir með kröfu um vopnahlé. Í nær öllum samfélagshópum, hvort sem skipt er eftir kyni, aldri, búsetu, menntun eða stjórnmálaskoðunum, voru langtum fleiri óánægðir en ánægðir með þá ákvörðun. Það er þó ekki án undantekninga.

Aldur hafði nokkuð að segja um afstöðu til málsins.

Óánægja var meiri á meðal kvenna (84,7%) en karla (58,6%), meiri í Reykjavík (80,5%) og á Vesturlandi og Vestfjörðum (77,5%) en í öðrum byggðum landsins (61,5–68,2%), minnst raunar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur (61,5%).

Aldur hafði nokkuð að segja um afstöðu til málsins: þannig eru yfir tvöfalt fleiri úr hópi 50 ára og eldri (19–21%) ánægð með hjásetu Íslands en úr hópum fólks á aldrinum 18–49 ára (8–10%).

Þá fór óanægja sýnilega vaxandi með aukinni menntun: 82,3% háskólamenntaðra reyndust óánægð, en 59,7% þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi.

Tekjustig hafði aftur á móti ekki veruleg áhrif á afstöðu til málsins – þó voru hótinu fleiri ánægðir með afstöðuleysi Íslands meðal hátekjufólks (12,2–13,2%) en í öðrum tekjuhópum (7,7–11,7%).

Mest óánægja meðal Sósíalista og Pírata

Mestur munur milli hópa greindist eftir stuðningi við stjórnmálaflokka: 97,4 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Sósíalistaflokkinn ef nú væri gengið til kosninga voru óánægð með afstöðuleysi Íslands og 94,8% af þeim sem sögðust myndu kjósa Pírata. Næst á eftir þeim var mest óánægja meðal kjósenda Samfylkingarinnar, eða 85,8 prósent. Meðal fylgjenda Flokks fólksins, Vinstri grænna og Viðreisnar voru 75,8–79,6 óánægð. Og raunar reyndist einörð ánægja með afstöðuleysi Íslands umtalsvert meiri meðal kjósenda VG en til dæmis meðal kjósenda Viðreisnar og Samfylkingar: 6,9% kjósenda VG sögðust ánægð með það hvernig Ísland varði atkvæði sínu.

Spurt var: Ertu ánægð(ur/t )eða óánægð(ur/t) með hvernig Ísland ráðstafaði atkvæði sínu í atkvæðagreiðslu um þingsályktunartilögu á þingi Sameinuðuþjóðanna um vopnahlé á Gaza?

Meðal ótvíræðra íhaldsafla reyndist málinu hins vegar öfugt farið, og eru kjósendur þeirra eini samfélagshópurinn þar sem ánægðir eru fleiri en óánægðir: 38,1% kjósenda Sjálfstæðisflokksins segjast ánægðir með hvernig Ísland varði atkvæði sínu en aðeins 32,2% þeirra eru óánægðir. Meðal fylgjenda Miðflokksins er staðan svipuð: 38,8% þeirra sögðust ánægðir og 37,7% óánægðir. Kjósendur þessara tveggja flokka eru eini skilgreindi hópurinn í könnuninni, eins og hún birtist, þar sem ríkir meiri ánægja en óánægja í málinu.

Rúmur fjórðungur kjósenda Framsóknarflokksins sagðist ánægðir en rúmur helmingur óánægður. Og þrátt fyrir að óánægja ríki meðal kjósenda Flokks fólksins, sem fyrr segir, þá er þar einnig stór hópur sem segist ánægður með atkvæðið, eða 19,5%.

Að því er fram kemur í kynningargögnum Maskínu fór könnunin fram 3. til 7. nóvember 2023. Svarendur voru 1.259.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí