Víða um heim kalla kjósendur vinstrisins á vopnahlé á meðan flokkar þeirra tvístíga

Vefmiðillinn Politico birti á sunnudag samantekt um átök innan vinstrihreyfinga og vinstriflokka víða um heim, um afstöðuna til átakanna á Gasa. Greinin ber yfirskriftina „Around the world, the left is tearing itself apart over Israel“ – eða Um allan heim er vinstrið að sundurliðast yfir Ísrael. Ef til vill felur sú fyrirsögn í sér ýkjur en þó er ljóst að rammur ágreiningur ríkir um málið innan vinstrihreyfinga víðar en á milli ríkisstjórnar Vinstri grænna og grasrótarhreyfinga vinstra fólks á Íslandi. Og víða birtist hann einmitt í afstöðu til sama höfuðatriðis, ákallsins eftir tafarlausu vopnahléi á Gasa.

Kosningaskjálfti í Bretlandi

Um stöðuna í Bretlandi segir í greininni að eftir að hafa nær stöðugt 18 prósentustiga forskot í skoðanakönnunum um langa hríð og búist við sigri í þingkosningum 2024, standi Verkalýðsflokkurinn og þó einkum formaður hans, Keir Starmer, frammi fyrir einni af stærstu áskorunum sínum til þessa, andspænis þessu deiluefni: flokkur hans sé klofinn í afstöðu til þess hvort kalla ber eftir vopnahléi á Gasa. Um þriðjungur þingmanna flokksins og sumir virtustu stjórnmálamenn hans, að meðtöldum skoska leiðtoganum Anas Sarwar og Sadiq Khan, borgarstjóra Lundúna, kalli nú af einurð eftir vopnahléi. Starmer, formaður flokksins, hafi hins vegar hingað til staðið gegn þeirri kröfu. Nefnt er í því samhengi að Starmer hafi unnið hörðum höndum að því að losa flokkinn undan „orðspori um gyðingahatur“.

Á mánudag í liðinni viku hafi Starmer haldið ræðu þar sem sagði að vopnahlé nú myndi aðeins vera Hamas „hvatning“ til að fremja aðra banvæna árás á Ísrael. Miðillinn segir að fjöldi stjórnmálamanna og embættismanna sem vilja að Starmer taki eindregnari afstöðu með íbúum Palestínu hafi áhyggjur af því að núverandi afstaða hans kosti flokkinn mikið fylgi. Politico hefur það eftir ónefndum skuggaráðherra flokksins að honum „blæði nú atkvæðum múslima – nóg til að missa sæti ef kosið væri á morgun.“

Ungt fólk í Bandaríkjunum styður Palestínu

Í Bandaríkjunum segir miðillinn að skoðanakannanir sem gerðar voru áður en stríðið hófst hafi í fyrsta sinn sýnt fjölgun þeirra Bandaríkjamanna sem styðja málstað Palestínu. Fremstir í flokki þeirra eru ungir kjósendur sem telja sig til Demókrata. Þá hafi bandarískir gyðingar, að miklu leyti Demókratar, einnig tekið í auknum mæli að efast um stefnu Ísraels á undanliðnum árum. Þar, segir í samantektinni, má einnig greina kynslóðabil. Bandarískir gyðingar af „millenials“-kynslóðinni svonefndu, í grófum dráttum fólk sem er nú á milli þrítugs og fertugs, er ólíklegast til að lýsa yfir stuðningi við forystu Netanyahus.

Spænskir sósíalistar segja Hamas hryðjuverkasamtök, Sumar ekki

Sósíalistaflokkurinn sem nú leiðir ríkisstjórn á Spáni fordæmdi árás Hamas þann 7 .október sem „hryðjuverkaárás“ og talaði fyrir rétti Ísraels til að verjast. Flokkurinn hefur þó einnig lýst vanþóknun á mannfalli meðal óbreyttra borgara af völdum loftárása Ísraels á Gasa og talað fyrir vopnahlé í mannúðarskyni til að forðast frekara mannfall óbreyttra. Samstarfsfólk sósíalista í framboðsvettvanginum Sumar, sem stendur lengra til vinstri en sósíalistaflokkurinn í spænskum stjórnmálum, neitar að skilgreina Hamas sem hryðjuverkasamtök. Talsmaður hópsins, Ernest Urtasun, segir Ísraelsríki ábyrgt fyrir ofbeldinu sem leiði af ólögmætu landnámi Ísraels á palestínskum yfirráðasvæðum. Urtasun hefur kallað ríkisstjórn Netayhaus „öfgaafl“ og gagnrýnt Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, fyrir að horfa fram hjá þeim „ódæðum og stríðsglæpum sem Ísrael fremur.“

Þýska vinstrið hliðhollt Ísrael

Í Þýskalandi segir greinarhöfundur Politico að vinstrið hafi tekist á um deilur Ísraela og Araba allt frá því að hópar stúdenta lýstu yfir samstöðu með Palestínumönnum í kjölfar sex daga stríðsins 1967. Þó að sú spenna sé enn til staðar, segir þar, hefur hljóðnað í henni frá árás Hamas á ísraelska borgara „að mnnsta kosti í bili.“ Segir þar að meðal stjórnmálamanna af vinstri væng þýskra stjórnmála hafi einhverjir hvatt Ísrael til að gæta meðalhófs í viðbrögðum við árásinni og kallað eftir „vopnahléi í mannúðarskyni“, en fáir hafi efast um rétt Ísraels til að grípa til varna.

Allir vinstriflokkar Þýskalands, Sósíaldemókratar (SPD), Græningjar og Vinstrið (Die Linke), hafi stutt þingsályktun þann 10. október síðastliðinn, sem lýsti yfir samstöðu með Ísrael og fordæmdi Hamas. „Eini staðurinn fyrir Þýskaland á þessari stundu er við hlið Ísraels,“ sagði kanslarinn Olaf Scholz, úr röðum sósíal-demókrata, um það leyti, og segir í grein Politico að efasemdir um það sé vandfundnar í þýskum stjórnmálum yfirleitt. Greinarhöfundur tilgreinir þá djúpu ábyrgðarkennd sem flestir Þjóðverjar finni til gagnvart Ísrael í ljósi helfararinnar en bætir því við að stuðningur þýskra stjórnvalda sé eftir sem áður ekki takmarkalaus, eins og greina megi á þeirri ákvörðun þeirra í liðinni viku að sitja hjá við afgreiðslu ályktunar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem kallað var eftir vopnahléi á Gasa, í stað þess að hafna tillögunni, eins og Ísrael hafði beðið um.

Í samantektinni segir að í Þýskalandi hafi andstaða við stefnu Ísraels fyrst og fremst birst meðal múslima úr röðum innflytjenda, sem hafi fjölmennt til mótmælaaðgerða í mörgum borgum landsins.

Í greininni er einnig rissuð upp mynd af ágreiningi um viðfangsefnið meðal vinstrihreyfinga í Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og í Kanada.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí