Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ráðleggur breskum stjórnvöldum að senda innflytjendur sem koma til landsins sjóleiðina yfir Ermarsund aftur til baka sömu leið. „Besta lausnin er oft einföldust,“ sagði hann við Nigel Farage, einn þekktasta hægri-popúlista landsins, sem hló og kættist en tók þó ekki beinlínis undir og virtist allt að því forviða yfir villimannslegu tali Sigmundar.
Farage og Sigmundur fara yfir stöðuna
Nigel Farage, hægri-popúlisti í breskum stjórnmálum og nú sjónvarpsþáttastjórnandi, kynnti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, sem viðmælanda í spjallþætti sínum, Talking Pints, á GBNews á fimmtudag. Þeir sötruðu hvor af sínum bjórnum á meðan Sigmundur sagði Farage frá því að „glóbalistar“ á Íslandi hati sig, íslenskir umhverfisverndarsinnar séu mótfallnir vatnsaflsvirkjunum, hvernig Íslandi er betur borgið utan Evrópusambandsins, hvernig Sigmundur sjálfur, í slagtogi við aðra, koma efnahag landsins á réttan kjöl eftir hrunið 2008.
„You upset the global establishment, your name was released in the Panama Papers, that made life difficult“ sagði Nigel við Sigmund, hróðugan: þú komst heimskerfinu í uppnám, nafn þitt birtist í Panamaskjölunum, það gerði lífið erfitt. Og þeir grínuðust aðeins með það, hvernig „gaur frá Íslandi sem enginn hafi heyrt af“ hefði birst á forsíðu á þýsku dagblaði með Pútín og Ahmadinejad. „Jæja, við erum báðir fullgildir félagar í sama klúbbnum hér, Sigmundur,“ gantaðist Farage. „Og það er sannarlega enginn vafi á því.“
„Gefið þeim vatnsflösku og sendið þá til Frakklands“
Sigmundur vék að hinni ópólitísku ríkisstjórn hægri-, vinstri- og miðjuflokks á Íslandi og vísaði til Sjálfstæðisflokksins sem fyrrverandi íhaldsflokks. Þar sem stjórnin snúist ekki um stjórnmál heldur stöðugleika þá verði það eitt úr að „kerfið ráði“ – „the establishment rules.“ Að því sögðu kvaðst Sigmundur Davíð ætla að halda áfram í stjórnmálum og nefndi aðeins eitt mál sem sérstaka áskorun: innflytjendur. Allt í einu er sá málaflokkur stjórnlaus, sagði Sigmundur. Og Farage gekk á lagið: „Heyrðu, þú sagðir mér áður en við fórum í loftið að þú gætir leyst innflytjendavanda okkar, siglingar farandfólks yfir Ermarsund, svo gjörðu svo vel.“ Og Sigmundur Davíð svaraði:
„Að mínu mati, utan frá séð, er það einfalt. Vegna þess að fólk, sérstaklega stjórnmálamenn, gera þessa hluti svo flókna. Og þeir gera hluti flókna fyrir sjálfa sig, láta frá sér vald til einhverrar stofnunar sem alltaf er að gera hluti erfiðari og erfiðari fyrir þá. Svo þegar bátur kemur með ólöglega innflytjendur, færið þá á land, gefið þeim vatnsflösku, og sendið þá aftur til Frakklands. Til lengri tíma ætti þetta að henta Frakklandi líka, vegna þess að ég held að þeir vilji ekki vera milliliður í þessu mikla innflæði flóks til Bretlands.“
„Gefið þeim vatnsflösku og færið þá til Frakklands“
„Svo senda þá bara aftur til Frakklands með vatnsflösku?“ spurði Farage. „Já. Tafarlaust. Senda þá aftur til Frakklands. Frakkar verða að taka á móti þeim, því þeir eru að koma þaðan.“ Sigmundur bætti því við að „bestu lausnirnar eru oft þær einföldustu.“
Farage hló og sagði að hann þyrfti að koma Sigmundi Davíð og breska Íhaldsflokknum saman, því „þeir þyrftu á einhverjum að halda með bein í nefinu.“ Að því sögðu var þó heldur eins og hægri-popúlistinn Farage væri ekki viss um hvort það væri ráðlegt að tala mikið lengur um þetta mál við öfgamanninn frá Íslandi og sneri talinu að öðru.
Viðtalið allt má sjá á Youtube.