Eftirfarandi tilkynning birtist á vef ASÍ í dag, föstudag:
Árétting vegna óboðlegra aðstæðna launafólks
Nýleg könnun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á geymslu matvæla í kjallara að Sóltúni við vægast sagt óheilnæmar aðstæður hefur réttilega vakið mikinn óhug.
Umfjöllun um matvælin segir þó bara hálfa sögu. Í gær greindu fjölmiðlar frá því að vísbendingar væru um að fólk hefði dvalið í geymslunni. Uppreist tjald, dýnur og matarílát fundust á vettvangi eins og sjá má á ljósmyndum sem birtar hafa verið í fjölmiðlum. Reynist það svo að starfsfólk Vy-þrifa eða tengdra fyrirtækja hafi dvalið í kjallaranum, meðal meindýra og rottuskíts, er um að ræða nýjan lágpunkt í aðbúnaði launafólks hér á landi.
Afkoma og dvalarleyfi háð atvinnurekanda
Af þessu tilefni vill ASÍ vekja athygli á viðkvæmri stöðu fólks frá ríkjum utan EES, sérstaklega frá ríkjum þar sem tekjur eru mun lægri en á Íslandi. Um er að ræða fólk sem starfar á Íslandi á tímabundnu atvinnuleyfi og á bæði afkomu og dvalarleyfi undir sama aðilanum, stundum líka húsnæði. ASÍ hefur áður lýst áhyggjum af þessum hóp, meðal annars í nýrri vinnumarkaðsskýrslu.
Einstaklingar sem eiga á hættu að missa atvinnuleyfi sitt og þar með dvalarleyfi geta verið líklegri til að sætta sig við slæmar aðstæður í vinnu. Vinnustaðaeftirlit ASÍ og stéttarfélaganna hefur séð dæmi þess að hótanir um brottvísun eða annað enn verra séu notaðar til að halda fólki í óásættanlegum aðstæðum. Af þessum sökum getur starfsfólk verið tregt til að upplýsa um framkomu atvinnurekandans.
Varðstaða um rétt launafólks
ASÍ áréttar að verkalýðshreyfingin stendur með launafólki og hvetur allt starfsfólk til að leita til ASÍ eða síns stéttarfélags ef það grunar að verið sé að brjóta á því. Einnig er hægt að senda ábendingar, undir nafni eða nafnlaust, gegnum síðuna labour.is. Almenningur getur líka haft samband ef grunur er um eitthvað misjafnt.
Við vekjum líka athygli á því að í málum þar sem um er að ræða mansal eða hugsanlegt mansal, eiga þolendur ríkan rétt, meðal annars á sérstöku dvalarleyfi, húsnæði og fjárstuðningi. Eru þessi ákvæði sett til að auðvelda fólki að losa sig úr óviðunandi aðstæðum.