Eins og Bretland hyggst Austurríki nú úthýsa flóttafólki til þriðja ríkis

Á sama tíma og fjöldi mannréttindasamtaka andmælir harðlega þeim áformum breskra stjórnvalda að senda alla umsækjendur um vernd sem koma til Bretlands á eigin vegum til Afríkuríkisins Rúanda, hafa austurrísk stjórnvöld nú lýst áformum um að koma á laggirnar hliðstæðu kerfi.

Síðastliðinn fimmtudag átti Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, fund með Gerhard Karner, innanríkisráðherra Austurríkis, þar sem þau undirrituðu samkomulag um „fólksflutninga og öryggi“ og hétu auknu samstarfi milli landanna tveggja. Austurríki er fyrsta aðildarríki ESB til að gera slíkt samkomulag við Bretland.

Tekist á um lögmæti

Áform Austurríkis eru sögð ólík áætlun Bretlands að því leyti að fólk sem yrði fært til „móttökumiðstöðvar“ í þriðja ríki – það er hvorki í upprunalandi fólksins né ætluðum áfangastað þess – ætti möguleika á að snúa aftur til Austurríkis ef umsókn þess um vernd fær jákvæða niðurstöðu. Bretar hyggjast, að óbreyttu, ekki taka umsóknir þeirra sem koma til landsins á eigin vegum til skoðunar.

Enn er tekist á um það fyrir dómstólum hvort þau áform standast lög í Bretlandi sjálfu. Á sama tíma þrýsta Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, og innanríkisráðherra, nú á Evrópuríki að draga úr réttindum farandfólks og gera breytingar í þá veru, bæði á Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Danmörk á sömu vegferð

Samkvæmt umfjöllun The Guardian er Danmörk eina ríki heims, til viðbótar við Bretland og Austurríki, sem hefur kynnt drög að áætlun um að brottvísa umsækjendum um alþjóðlega vernd til þriðja ríkis.

Í Danmörku voru árið 2021 samþykkt lög sem gera stjórnvöldum kleift að gera slíkan samning við annað ríki, þrátt fyrir viðvaranir Flóttamannastofnunar SÞ, sem hvatti danska þingið til að hafna frumvarpinu. Í Danmörku hefur Rúanda komið til umfjöllunar sem þriðja ríki í þessu samhengi, rétt eins og í Bretlandi og Austurríki. Enn hefur Danmörk þó ekki gert neinn samning af þeim toga.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí