Stjórnvöld þvinga lyf í fólk við brottvísanir og ráðherrar víkjast undan fyrirspurnum

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur nú leitað svara ráðherra um þvingaða lyfjagjöf sem beitt er við brottvísanir frá vorinu 2022, með ítrekuðum fyrirspurn. Dómsmálaráðherrar hafa vikist undan svörum, meðal annars með því að segja málið á ábyrgð heilbrigðisráðherra, sem heilbrigðisráðuneytið segir af og frá. Þessi eftirgrennslan teygir sig nú yfir þrjú löggjafarþing. Nýjustu fyrirspurnina um málið lagði Andrés fram í dag, mánudag.

Hafa lyf verið þvinguð í fólk við brottvísun?

Í apríl 2022 lagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um framkvæmd þvingaðra brottvísana. Slíkar aðgerðir eru almenningi að mestu leyti huldar, enda fara þær iðulega fram í skjóli nætur. Andrés spurði hvaða verklag gildir við aðgerðirnar, hvaða þvingunarúrræðum hefur verið beitt í þeim, og á hvaða lagastoð þau eru byggð. Í fyrirspurninni óskaði Andrés sérstaklega „upplýsinga um það hvort fólki hafi verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina.“

Í skriflegu svari ráðherra, sem þá var Jón Gunnarsson, kom fram að beitt hefur verið „flutningsbelti“ sem er útskýrt nánar sem „leðurbelti með handjárnum“; og handtöku en í því sambandi var vísað til lögreglulaga, auk reglna um valdbeitingu lögreglumanna þar sem heimilað er að „fjötra menn á fótum með fótjárnum við flutning.“ Í svarinu kom ekkert fram um lyfjagjöf, til eða frá, þrátt fyrir að hennar væri sérstaklega getið í fyrirspurninni.

„… nauðsynlegt … að gefa viðkomandi róandi lyf“

Á því sama þingi ítrekaði Andrés Ingi því fyrirspurnina og skerpti á þessum þætti hennar: „Hefur fólki, sem sótti um alþjóðlega vernd en flutt var úr landi með aðstoð lögreglu, verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina?“ stóð í fyrirspurn hans til ráðherra. Það var enn vorið 2022. Ráðherra svaraði fyrirspurninni í stuttu máli, skriflega, undir þinglok, í þingskjali 1164:

„Einstaklingum, sem fluttir hafa verið úr landi af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra, eru ekki og hafa ekki verið gefin lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun þannig að viðkomandi sé meðfærilegur í flutningum. Hins vegar hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingur hefur við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í þannig ástand að nauðsynlegt hefur verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaði hvorki sjálfan sig eða aðra. Slíkt er einungis og ávallt að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar, og er lyfjagjöfin þá framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni. Í slíkum aðstæðum er framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þangað til ástand viðkomandi er metið þannig af lækni að óhætt sé að flytja viðkomandi.“

Dómsmálaráðherra vísar til heilbrigðisráðherra

Á næsta þingi leitaði Andrés Ingi enn frekari svara um málið og bar, í september 2022, fram svohljóðandi fyrirspurn til dómsmálaráðherra: „ Á hvaða lagaheimild byggist þvinguð lyfjagjöf við handtöku umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd?“ – með tilvísun til fyrra svars, þingskjals 1164 frá 152. þingi.

Dómsmálaráðherra ítrekaði í svari við þeirri fyrirspurn að þegar hefði komið fram að „við framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra sé ekki verið að gefa einstaklingum lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun“ heldur hafi „komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í þannig ástand að nauðsynlegt hafi verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaðaði hvorki sig né aðra.“

Þá segir í svari ráðherrans að slíkt sé „einungis og ávallt að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar, og að lyfjagjöfin væri framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni.“ Þetta er ítrekað í svarinu og frekari spurningum því vísað til heilbrigðisráðherra: „Þvinguð lyfjagjöf einstaklings í því skyni að tryggja öryggi hans sjálfs, sem og annarra, er framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks. Fyrirspurn um þessi atriði ber því að beina til heilbrigðisráðherra.“

Ekki starfsfólk heilbrigðisstofnana

Andrés Ingi varð við þeim tilmælum í upphafi þessa árs, 2023, og lagði í febrúar fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar sem hann spyr nánar út í þvingaða lyfjagjöf við brottvísanir: á hvaða lagaheimild hún byggi, hvaða verklag gildi, hversu oft henni þvingaðri lyfjagjöf hefur verið beitt við brottvísanir síðustu fimm ár, í hve mörgum tilfellum manneskjur hafa enn verið undir áhrifum lyfjagjafarinnar þegar brottvísun er framkvæmd og loks hver taki ákvörðun um að beita þvingaðri lyfjagjöf, hver framkvæmir hana og hver ber ábyrgð á að meta hvort lagaskilyrði eru uppfyllt.

Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, svaraði þessari fyrirspurn undir þinglok, í júní, með því að Heilbrigðisráðuneytið hefði engin svör um efnið: „Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstofnunum og heilsugæslum, þ.m.t. læknum héraðsvaktar, hefur heilbrigðisstarfsfólk sem þar starfar ekki komið að þvingaðri lyfjagjöf við brottvísanir,“ stóð í svari ráðherrans og fleira ekki.

Hvaða heilbrigðisstarfsfólk þá?

Það er með tilvísun til þessa svars sem Andrés Ingi beindi nú september síðastliðnum enn einni fyrirspurn um efnið til dómsmálaráðherra og spurði: „Á hvers vegum var það heilbrigðisstarfsfólk sem ákvað og framkvæmdi þvingaða lyfjagjöf í tengslum við brottvísanir … í ljósi þess að fram kemur í svari heilbrigðisráðherra … að ekki sé um að ræða fólk sem starfi hjá heilbrigðisstofnunum eða heilsugæslum?“

Dómsmálaráðherra, nú Guðrún Hafsteinsdóttir, skilaði svari við þessari fyrirspurn í liðinni viku, þann 9. nóvember 2023, þar sem enn er fullyrt að þvinguð lyfjagjöf við brottvísanir sé „einungis og ávallt ákveðin af heilbrigðisstarfsfólki, ekki að beiðni stoðdeildar ríkislögreglustjóra,“ og „ávallt framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni“. Þá segir í svari ráðherrans: „ Í slíkum aðstæðum er framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þar til ástand viðkomandi er metið þannig af lækni að óhætt sé að flytja viðkomandi og því er lyfjagjöfin sem slík ekki framkvæmd í beinum tengslum við brottvísun.“

Ljóst má heita á þessu stigi að ráðuneytin verjast svara við inntaki spurningarinnar. Þolinmóð leit þingmannsins að svörum hefur teygt sig yfir þrjú löggjafarþing, frá fyrstu fyrirspurn. Alls hafa ráðherrar brugðist við fimm fyrirspurnum um efnið á þeim tíma, án þess að veita skýr svör. Að því leyti sem ráðuneytin bregðast þó við spurningum, og að því gefnu að viðbrögð þeirra innihaldi ekki beinar staðreyndavillur, þá virðist mega ráð af þeim að heilbrigðisstarfsfólk annist þvingaða lyfjagjöf við brottvísanir, en þetta heilbrigðisstarfsfólk starfi þó ekki við heilbrigðisstofnanir eða heilsugæslu.

Sjötta fyrirspurnin

Í dag, mánudaginn 13. nóvember, beindi Andrés Ingi því enn einni fyrirspurn um málið til dómsmálaráðherra. Það er sjötta fyrirspurn þingmannsins um efnið, svohljóðandi í heild:

„Hversu oft hefur þvinguð lyfjagjöf verið framkvæmd í tengslum við brottvísun, sbr. svar á þingskjali 517 á yfirstandandi löggjafarþingi? Óskað er upplýsinga tíu ár aftur í tímann þar sem fram komi hvaða heilbrigðisstétt þeir einstaklingar tilheyra sem tóku þátt í að gefa lyfin og hvar viðkomandi störfuðu, sem og dagsetning lyfjagjafar og eftir atvikum dagsetning brottvísunar. Jafnframt komi fram kyn þess einstaklings sem lyfin voru gefin og hvort viðkomandi hafi verið yngri en 18 ára.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí