Stjórnvöld hafa neitað tveimur frændum frá Palestínu, 12 og 14 ára gömlum, um vernd á Íslandi, en þeir hafa dvalið í fóstri hjá íslenskum fjölskyldum frá síðasta sumri.
Að óbreyttu verður piltunum báðum vísað úr landi og aftur til Grikklands þar sem þeir verða „tveir, foreldralausir á götunni við ömurlegar aðstæður.“ Þetta kom fram í færslu Magnúsar Más Einarssonar á Facebook á sunnudagskvöld, en hann hefur ásamt Önnu Guðrúnu Ingadóttur fóstrað yngri drenginn, Sameer, undanliðna mánuði.
Í færslunni kemur fram að foreldrar og systkini Sameers búa enn á Gasa-svæðinu. „Á hverjum degi bíður hann kvíðinn eftir fréttum af afdrifum fjölskyldunnar þegar Ísraelsmenn sprengja í nágrenninu,“ skrifar Magnús. „Við getum ekki lengur talið þá sem fallnir eru af honum nákomnum, heimili þeirra er sprungið og fjölskyldan er núna á vergangi í rústum heimaborgarinnar. Sameer hefur ekkert heyrt í fjölskyldu sinni síðasta sólarhringinn og við vitum ekki hver staðan á þeim er í augnablikinu.“
„Ótrúlega ómanneskjulegt“
Sameer, nú tólf ára gamall, yfirgaf fjölskyldu sína í Palestínu fyrir rúmu ári, segir Magnús, „og fór í mjög erfitt ferðalag til að sameinast frændum sínum sem hafa búið á Íslandi undanfarin ár en þeir eru í vinnu hér og hafa aðlagast íslensku samfélagi frábærlega.“
„Á Íslandi stunda þeir skóla,“ skrifar Magnús um piltana tvo, „æfa fótbolta með Aftureldingu og líkar frábærlega enda þurfa þeir ekki að óttast sprengingar á hverjum einasta klukkutíma. Það að ætla að senda þá í burtu frá Íslandi þegar þjóðarmorð eru í gangi í heimalandinu er ótrúlega ómanneskjulegt og eitthvað sem hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir.“
„Skal ekki koma til greina“
Ljóst er á viðbrögðum við færslum Magnúsar að mörgum blöskrar sú tilhugsun að íslensk stjórnvöld synji börnum á flótta frá Gasa um vernd, með fyrirsjáanlegum afleiðingum.
„Ömurlegt, þetta eru börn“ segir Guðrún Elísabet. „Það skal ekki koma til greina að þeir fari héðan,“ skrifar Hallur Kristján og bætir við: „Ég neita að trúa þvi að við séum stödd á þeim stað að það sé veruleikinn.“ – „Er ég að skilja þetta rétt? Er verið að senda úr landi 12 og 14 ára börn? Hvaða skrímsli og dusilmenni stýra þessu landi?“ spyr Þórður Einarsson.
Eru þá aðeins taldar þrjár af fyrstu athugasemdunum við færslu sem hefur, nokkrum klukkustundum eftir að hún birtist, verið deilt 480 sinnum á samfélagsmiðlinum. Þegar litið er yfir deilingarnar blasir við að fjölda fólks er ofboðið. Einar Steingrímsson, stærðfræðingur, deilir færslunni með ummælunum: „Þegar maður heldur að sadisminn hjá íslenskum yfirvöldum hafi náð hámarki kemur alltaf nýtt kjaftshögg.“ Þórarinn Leifsson, rithöfundur, skrifar: „Þetta gerum við ekki. Restin af heiminum má berast á banaspjótum en við sendum ekki 12 og 14 ára börn úr landi.“ Og Þórdís Helgadóttir, rithöfundur, deilir færslunni með orðunum: „Þetta er náttúrulega ekkert annað en bilun. Eða það er kurteislega orðið. Réttara væri kannski að tala um ómennska grimmd.“