Fall ríkisstjórnar opni leið fyrir Katrínu á Bessastaði

„Ég held að Katrín Jakobsdóttir færi varla fram nema ef stjórnin spryngi,“ segir Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands.

„En stjórnin er orðin völt í sessi og háværar raddir innan Sjálfstæðisflokksins um að það þurfi að breyta til, á sama tíma og fylgi VG hangir á bláþræði. Ef stjórnin fellur gæti því vel verið að Katrín byði sig fram og hún yrði mjög sterkur kandídat.“

Í bók Guðna Th. Jóhannessonar, sem hættir forsetatíð á árinu, um Gunnar Thoroddsen, segir að Íslendingar kjósi þann forseta sem fjærst stendur valdinu. Í tvö skipti hafa þó fyrrum stjórnmálamenn orðið forsetar en þá án þess að njóta stuðnings eigin flokks eða að loknum stjórnmálaferli. Því er snúið út frá sögulegum rökum að sögn Guðmundar að álykta hvers konar einstaklingur telst líklegastur til að sigra í forsetakosningunum í sumar.

Menningarvitar líkt og Guðni, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir hafa komist til Bessastaða milli þess sem stjórnmálamenn, þaulvanir í framkomu, hafa borið sigur úr býtum. Vandséð er að sögn Guðmundar að óþekktur einstaklingur gæti rutt sér braut á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Hann segir að framkoma muni miklu skipta. Vel geti verið að einhver verði forseti í sumar án þess að nafn viðkomandi hafi til þessa komið upp í umræðunni.

„Sannfæring frambjóðenda mun miklu skipta og hún er kannski einn stærsti óvissuþátturinn.“

Þá segir Guðmundur það ekki einfalda málið að frambjóðendur hér á landi hafi verið kjörnir forsetar með niður í tæp 34 prósenta fylgi. Hann telur tímabært að breyta skilyrðum um fjölda meðmælenda og segir að forsetakosningum sé enginn sómi sýndur með því að fólk sem ekki á erindi á Bessastaði sópi til sín athygli í aðdraganda kosninga.

„Mín tilfinning er að það þurfi að auka kröfur til frambjóðenda,“ segir Guðmundur. „Annars stefnir í að forsetakosningar verði svona „sjóv“ á kostnað skattborgara. Það lyftir ekki embættinu að gera eins litlar kröfur og raun ber vitni um stuðning við framboð, fjölda meðmælenda.“

Sumir frambjóðendur hafa lýst yfir að þeir taki slaginn til þess eins að vekja athygli á tilteknu málefni. Guðmundur segir að stór og breið málefni eins og náttúruvernd og umhverfismál geti verið réttlætanleg dæmi en forsetaframboð sé ekki heppilegur fyrir hagsmunabaráttu gagnvart þröngu málefni.

„Einn mikilvægasti þáttur forsetans er að hann er öryggisventill auk þess að vera sameiningartákn. Í því ljósi er frekar líklegt að þjóðin velji sér frambjóðanda sem ekki er innmúraður í ráðandi valdakerfum. Til að geta verið öryggisventill þarf forseti að þora að stíga á bremsuna á neyðarstundum og beita synjunarvaldi til að koma í veg fyrir að sýslað verði með mjög umdeilda hluti gegn vilja þjóðarinnar. Þetta er þó vandmeðfarið vald og því eins gott að sá eða sú sem verður fyrir valinu sé starfinu vaxin(n)!“

Árið 2016, nokkru áður en landsmenn völdu Guðna Th, sýndi þjóðarpúls Gallup að rífur þriðjungur þjóðar vildi þá Katrínu sem forseta. Fimmtungur nefndi þá Bjarna Benediktsson. Síðan hafa vinsældir þeirra tveggja látið undan síga. Barni er óvinsælasti stjórnmálaleiðtogi landsins nú um stundir samkvæmt könnunum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí