Íslenska þjóðaríþróttin í tísku – tekjur handboltafólks á uppleið

Þótt fótboltinn beri enn höfuð og herðar yfir handboltann í heiminum reyndist nýafstaðið Evrópumót í Þýskalandi algjör bomba sem virðist hafa aukið vinsældir íþróttarinnar út um allan heim. Þetta kemur fram í Guardian.

Íslendingar munu minnast mótsins með blendnum huga, þar sem aðeins þrjú mörk skildu á milli ólympíusætis er upp var staðið. Góðu fréttirnar fyrir handboltahreyfinguna hér í landi eru aftur á móti þær að íþróttin nýtur nú vaxandi vinsælda sem ekki síst er þakkað dramatíkinni í mótinu.

Á Íslandi hefur handbolti lengi verið þjóðaríþrótt og styður fjöldi fólks börn við æfingar og keppni að ekki sé minnst á frábært starf íþróttafélaga út um land allt. Hluti iðkenda heldur áfram upp í meistaraflokk og er skemmst að minnast vakningar í kvennaboltanum. Enda leitun að betri skemmtun þar sem hraður leikurinn reynir á kænsku, liðsanda og hugvit, ekki síður en styrk, þrek og vel heppnuð leikkerfi. Íslendingar hafa því iðulega undrast af hverju handboltinn fær ekki meiri athygli á heimvísu.

En nú hyllir undir straumhvörf. Samkvæmt stórblaðinu Guardian sem birti í gær úttekt um EM hefur síðustu ár orðið söguleg vakning meðal margra þjóðlanda þar sem handboltinn virðist í stöðugri sókn. Þessi vakning virðist hafa stóraukið áhuga á EM. Nægir í þeim efnum að nefna nágranna okkar og vini Færeyinga sem náðu fyrsta stigi sínu með jafntefli gegn Norðmönnum. Það sem vakti ekki minni athygli var að 10% færeysku þjóðarinnar flaug utan til að styðja sitt lið.

Guardian hefur eftir aðstandendum mótsins að áhorf á beinar sjónvarpsútsendingar hafi verið gríðarlegt og meira en dæmi voru um áður í sögu handboltaútsendinga. Þá fylltu tugir áhorfenda hallirnar þar sem leikirnir fóru fram. Eflaust skaðaði ekki að í Þýskalandi hefur handboltinn alltaf verið risastór íþrótt sem og hér landi. Kemur fram hjá Guardian að árslaun handboltamanna í efstu röð í Þýskalandi nemi nú orðið um 150 milljónum íslenskra króna.

Flestir spila þó handbolta af leikgleði einni saman. Varðar mestu samkvæmt Guardian að þjóðir heims styðji enn frekar við barnastarf og yngri iðkendur. En fyrir þá sem ala með sér draum um atvinnumennsku í handbolta gætu aukin tækifæri verið handan við hornið.  

Kannski verður íslenska þjóðaríþróttin vinsælasta íþrótt alheims í framtíðinni? Eða nennir einhver að líkja því tvennu saman að húka í 90 mínútur yfir markalausu jafntefli á Anfield Road eða upplifa dramatíkina  sem fylgdi lokaleik EM þegar Frakkar stálu sigrinum af Dönum í framlengingu???

Efri myndin er af ungverska sigurliðinu Veszprém sem sigraði Balaton Cup leikmanna 16 ára og yngri í síðustu viku. Þar er mikil áhugavakning. Hin myndin er frá EM.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí