Laun þurfa að hækka um a.m.k. 150 þúsund krónur á mánuði ef Viðskiptaráð fær að ráða

Stjórn VR lýsir yfir furðu yfir atlögu Viðskiptaráðs að íbúðafélögunum Bjargi og Blæ sem hafa það að markmiði að tryggja einstaklingum og fjölskyldum á leigumarkaði öruggt húsnæði á sanngjörnum kjörum.

Þegar Blær, leigufélag á vegum VR, afhenti sína fyrstu íbúð fyrr á þessu ári tók við henni leigjandi sem hafði þurft að sæta hækkun á leiguverði í sínu fyrra húsnæði úr 260 þúsund krónum á mánuði og upp í 430 þúsund krónur á aðeins fjórum árum. Vissulega er það hagur eigenda slíks leiguhúsnæðis að geta hækkað leigu eftir eigin geðþótta, en engin venjuleg launamanneskja á leigumarkaði getur staðið undir slíku. Viðskiptaráð gengur erinda leigusala sem hagnast á slakri vernd leigjenda og verktaka sem geta selt húsnæði til leigufélaga á yfirverði, en skeytir engu um hag þess fjölda fólks sem þarf á öruggu leiguhúsnæði að halda.  

Hóflegur leigumarkaður hefur áhrif á húsnæðismál í heild sinni. Sé gróðaöflunum látin leigan eftir hefur það bein áhrif til hækkunar á húsnæðisverði fyrir allan almenning og þar með á bæði verðbólgu og lífskjör. Þess vegna er það eitt af hlutverkum stjórnvalda, hérlendis sem erlendis, að stuðla að skipulögðum leigumarkaði þar sem húsnæðisöryggi er í fyrirrúmi.

Sem dæmi má nefna að leigjandi hjá Bjargi greiðir að jafnaði ríflega þriðjungi lægri leigu en á markaði en leigjendur Bjargs eru allt einstaklingar og fjölskyldur í lægri tekjuþrepum. Munurinn á greiðslubyrði getur verið allt að 100 þúsund krónur á mánuði, sé litið til meðalleigufjárhæðar á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu HMS. Leigjandi hjá Blævi, þar sem ekki er kveðið á um tekjumörk, getur átt von á að greiða um 15% lægri leigu en á markaði.  

Verði Viðskiptaráði ágengt með atlögu sína að húsnæðisöryggi fólks er einbúið að verkalýðshreyfingin þurfi að krefjast a.m.k. 150 þúsund króna viðbótahækkunar á launum í næstu kjarasamningum. Það er þá fjármagn sem mun rata beint frá launafólki og fyrirtækjum í vasa gróðadrifinna verktaka og leigufélaga.

Stjórn VR spyr hvort fyrirtæki á borð við Ölgerðina, Festi, Icelandair, Kerecis, Sýn, Landsbankann og Eflu og öll hin fyrirtækin sem eiga aðild að Viðskiptaráði séu tilbúin í þá vegferð. Því staðreyndin er sú að í íbúðum Bjargs og Blævar býr launafólk sem á ríkan þátt í að skapa verðmæti þessara sömu fyrirtækja og halda úti stofnunum samfélagsins sem við öll reiðum okkur á. Hvað segja fulltrúar framangreindra fyrirtækja sem mynda framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs – Andri Þór Guðmundsson, Ásta S. Fjeldsted, Bogi Nils Bogason, Guðmundur Fertram, Herdís Dröfn Fjeldsted, Lilja Björk Einarsdóttir og Sæmundur Sæmundsson – er þetta í ykkar nafni?  

Stjórn VR fer fram á skýr svör frá þeim 37 fyrirtækjum eiga sæti í stjórn Viðskiptaráðs. 

Stjórn VR, 16. júní 2025

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí