Tungutak Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra var með öðrum hætti en verið hefur þegar hún ávarpaði þjóðina á sunnudag á fundi Almannavarna eftir eldgosið í Grindavík. Óvanalegt er að heyra forsætisráðherra ræða mikilvægi bæna og kærleika eins og voru leiðarstef í ræðu hennar. Málflutningur Katrínar sem þingmanns og ráðherra hefur jafnan verið fremur knappur og efnislegur.

Páll Baldvin Baldvinsson, leikstjóri og rithöfundur, kallaði við Rauða borðið í gærkvöldi þessa ræða fyrstu forsetaræðu Katrínar.
Í sunnudagsræðunni höfðaði Katrín til mennsku þjóðar sinnar og fór yfir mikilvægi æðruleysis. Hún notaði orðið „kraftaverk“ þegar hún lýsti störfum björgunaraðila við Grindavík. Orð eins og „brimskafl“ og „kærleikur“ hafa ekki verið einkennandi fyrir tjáningu hennar til þessa en þau komu fyrir á sunnudag. Spurningin er hvort um freudíska framboðsræðu fyrir Bessastaði hafi verið að ræða.
„Það er svartur dagur í dag fyrir Ísland en sólin mun koma upp aftur. Saman munum við takast á við þetta áfall. Hugur okkar og bænir eru hjá ykkur,“ sagði Katrín.
Katrín hefur ekki enn aftekið fyrir að bjóða sig fram til forseta Íslands.
Hér geta lesendur hlustað á ræðu Katrínar: