Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir að sprengja sprakk og skotárás var gerð í Pakistan í morgun. Kosningar til þings og héraðsþinga standa yfir í landinu. Í gær létust að minnsta kosti 28 manns í tveimur sprengjuárásum á kosningaskrifstofur. Innanríkisráðuneytið hefur látið loka fyrir internet samband í landinu. Landamærum Pakistan hefur þá verið lokað.
Sprengjuárásin var gerð í Khyber Pakhutunkhwa héraði í Pakistan og henni fylgdi skotárás. Fimm lögreglu- og hermenn féllu í árásinni, hið minnsta. Enginn hefur lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér. Íslamska ríkið hefur hins vegar lýst ábyrgð á hendur sér vegna sprengjuárásanna tveggja sem gerðar voru í gær. Tugir eru særðir eftir þær árásir, margir alvarlega, utan þeirra 28 sem féllu hið minnsta.
Mannréttindasamtök og stjórnarandstæðingar hafa krafist þess að internet sambandi verði aftur komið á enda sé það afar mikilvægt til að hægt sé að hvetja fólk til að koma á kjörstað. Kjörsókn hefur farið hægt af stað og þá er gríðarlegar tafir á fjölda kjörstaða vegna tæknilegra vandamála og annarra skipulagsþátta sem eru í fullkomnum ólestri.
Stjórnarandstæðingar halda því þá fram að lögregla hafi áreitt og hótað starfsfólki á kjörstöðum, sem og starfsmönnum stjórnarandstöðuflokka. Alþjóðastofnanir, jafnt og innlendar hafa lýst yfir miklum áhyggjum af því að kosningarnar muni ekki fara fram með lýðræðislegum hætti.
Meðfylgjandi mynd er frá kosningunum 2018, frá The Commonwealth Secritariat.