Tilnefning presta og djákna til biskupskjörs mistókst svo það verður að endurtaka hana. „Komið hefur í ljós að vegna tæknilegra mistaka hjá þjónustuaðila vegna biskupskosninga, verður ekki unnt að telja tilnefningar til biskupskjörs með öruggum hætti,“ segir í tilkynningu kjörstjórnar.
Kjörstjórn telur rétt að endurtaka tilnefningar eins fljótt og unnt er og verður stefnt að því að þær hefjist að nýju fyrir vikulok, enda hefur þjónustuaðili þegar sett í gang vinnu við að laga það sem úrskeiðis fór við talningu í dag, samkvæmt tilkynningunni.
Allir prestar og djáknar Þjóðkirkjunnar geta tilnefnd vígða presta til biskupskjörs. Þau þrjú sem oftast verða tilnefnd verða í kjöri til biskups. Um þrjú þúsund manns úr öllum sóknum, lærðir og leikir, eru á kjörskrá.
Prestar og djáknar geta tilnefnd hvern sem er en nokkur hafa gefið sig fram og sagst munu taka tilnefningu. Bjarni Karlsson prestur og siðfræðingur á Sálgæslu- og sálfræðistofunni Hafi, Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur, Guðmundur Karl Brynjarsson prestur í Lindakirkju í Kópavogi, Guðrún Karls Helgudóttir prestur í Grafarvogi, Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur í Reykjavíkurprófastdæmi vestra og prestur Háteigskirkju, Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti og Ninna Sif Svavarsdóttir formaður Prestafélagsins og prestur í Hveragerði hafa öll rétt upp hönd. Þá hefur Svavar Alfreð Jónsson sjúkrahússprestur á Akureyri verið nefndur og ekki aftekið að hann sé í framboði.
Það mun koma í ljós í næstu viku hvort kirkjunni takist að finna út hver þrjú af ofantöldu verði í biskupskjöri eða kannski einhver utan þessa hóps.
Myndin er frá biskupsvígslu Agnesar M. Sigurðardóttur fyrir tólf árum.