Evrópusinni hafði betur gegn þjóðernissinna í forsetakosningum í Slóvakíu 

Ivan Korčok hlaut flest atvkæði í forsetakosningunum í Slóvakíu sem fram fóru í gær. Korčok fékk þó ekki yfir helming atkvæða sem gerir að verkum að kjósa þarf aftur milli hans og næsta frambjóðanda, Peter Pellegrini. Sá er einarður stuðningsmaður vinstri þjóðernispopúlistans Roberts Fico forsætisráðherra. Fico hefur setið undir ámæli fyrir afstöðu sína til stríðsins í Úkraínu og vegna þess hversu hallur hann þykir undir Rússland.

Sigur Korčok kom flestum á óvart en fyrirfram hafði verið búist við sigri Pellegrinis. Þegar búið var að telja 99,9 prósent atkvæða hafði Korčok fengið 42,5 prósent atkvæða, en Pellegrini 37,1 prósent. 

Korčok er fyrrverandi utanríkiráðherra Slóvakíu og er harður stuðningsmaður Evrópusambandsins en Fico forsætisráðherra og Pellegrini bandamaður hans hafa báðir haldið á lofti efasemdum um Evrópusamstarfið. Pellegrini er núverandi forseti slóvaska þingsins og leiðtogi stjórnarflokksins Hlas, sem er í meirihlutasamstarfi við Smer, flokk Fico. Hann er þá fyrrverandi forsætisráðherra og var áður meðlimur Smer flokksins. 

Fico og Smer flokkurinn unni kosningasigur í þingkosningunum í Slóvakíu í september síðastliðnum. Kosningaloforð flokksins voru meðal annars að stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu. 

Litið var á kosningarnar sem möguleika Fico til að styrkja stöðu sína og völd í landinu, á meðan stjórnarandstæðingar vonuðust til að þrengja að honum. Tilraunir Fico til að færa utanríkisstefnu Slóvakíu til, fjarlægjast vesturveldin en halla sér í meira mæli að Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands og að Rússum, auk mjög umdeildra breytingar á dómskerfi landsins hafa orðið kveikjan að mótmælaaðgerðum gegn ríkisstjórninni. Fráfarandi forseti, Zuzana Čaputová, hefur gagnrýnt Fico af hörku og er Korock á sömu línu. 

Níu voru í framboði en sjö hellast nú úr lestinni. Meðal þeirra var Stefan Harabin, fyrrverandi forseti hæstarétta Slóvakíu, sem eins og þeir Pellegrini og Fico er hallur undir málstað Rússa. Hann varð í þriðja sæti í kosningunum og hlaut 11,75 prósent atkvæða. Þriðji stjórnarflokkurinn, popúlíski hægri öfgaþjóðernisflokkurinn SNS lýsti stuðningi sínum við Harabin fyrir kosningarnar. Ekki er ólíklegt talið að kjósendur Harabin gætu fært sig yfir til Pellegrini. Kosið verður að nýju milli þeirra Korčok og Pellegrinis 6. apríl næstkomandi. 

Forsetaembættið í Slóvakíu fer ekki með víðtæk stjórnskipunarvöld, en svipað og á Íslandi hefur embættið hlutverki að gegna við ríkisstjórnarmyndun og getur hafnað lagasetningu. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí