Bláa lónið er opið í dag og verður svo að óbreyttu til klukkan 22 í kvöld.
Baðstaðurinn er með leyfi frá lögregluyfirvöldum til að hafa starfsemina opna.
Viðbragðsáætlun er í gangi ef eldgos brýst upp í nálægð hinnar fjölsóttu ferðamannaperlu. Jarðvísindamenn hafa sagt að fyrirvari næsta eldgoss gæti orðið mjög skammur – jafnvel aðeins tíu mínútur.
Starfsmaður Bláa lónsins sagði þegar áhugasamur viðskiptavinur kannaði stöðuna í morgun í gegnum síma, að ekki væri fullbókað. Væri hægt að panta tíma í dag og enginn sérstakur ótti í starfsmönnum. Rýmingaráætlun staðarins væri þaulæfð.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segist sjálfur ekki myndi fara í Bláa lónið í dag.
Hann segist ekki heldur myndu gista í Grindavík þessa dagana.
Kvikumagn er að nálgast þolmörk á Reykjanesskaga þar sem líklegast er að eldgos brjótist upp á næstu dögum. Gæti yfirborð jarðar opnast nánast einn, tveir og þrír.