Seinagangur hjá Útlendingastofnun eykur kostnað ríkissjóðs vegna umsækjenda um vernd

Flóttafólk 11. mar 2024

Seinagangur í málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ásamt uppsöfnuðum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem bíður afgreiðslu Útlendingastofnunar gerir það að verkum að umsækjendur ílengjast lengur í úrræðum Vinnumálastofnunar. Af þeim sökum hefur kostnaður vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd aukist umtalsvert. 

Þetta kemur fram í minnisblaði frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem sent var fjárlaganefnd Alþingis, með yfirskrifinni Útgjöld ríkissjóðs vegna útlendingamála – hluti félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. 

Fjölda umsókna um alþjóðlega vernd fækkaði um 8 prósent milli áranna 2022 og 2023. Á síðasta ári voru þær 4.155 en voru 4.520 árið 2022. Rétt tæplega 80 prósent allra umsókna um vernd hér á landi á síðasta ári voru frá Úkraínu og Venesúela. Alls sóttu 1.618 manns frá Úkraínu hér á landi, og 1.586 frá Venesúela. 

Spá Útlendingastofnunar ekki í samræmi við rauntölur

Í minnisblaðinu kemur fram að miðspá Útlendingastofnunar um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi á þessu ári rímar ekki við þá þróun sem hefur verið á raun umsóknum fyrstu tvo mánuði ársins. Spá Útlendingastofnunar gerir ráð fyrir að nýjar umsóknir á þessu ári verið 4.140 talsins, því sem næst jafn margar og á síðasta ári. Umsóknir fyrstu tveggja mánaða ársins eru hins vegar töluvert færri en á sama tímabili á síðasta ári, eðs 410 talsins samanborið við 925 árið 2023. „Ef þessi þróun heldur áfram á þessu ári og ef dreifing umsókna verður í takt við árið 2023 þá má gera ráð fyrir að fjöldi umsókna í ár verði á bilinu 2.000 – 2.500,“ segir í minnisblaðinu. 

Þetta skiptir all verulegu máli þegar horft er til þeirra fjármuna sem nauðsynlegir eru til að tryggja umsækjendum um alþjóðlega vernd eðlilega þjónustu. Útgjöld vegna þjónustu við umsækjendur voru á síðasta ári rúmir 10,8 milljarðar krónar og rúmlega tvöfölduðust frá fyrra ári, þegar þeir voru 4,7 milljarðar króna. Sé miðað við spá Útlendingastofnunar segir í minnisblaðinu að  Vinnumálastofnun geri ráð fyrir því að útgjöld á árinu verði um 17,7 milljarðar króna. Það er um 9,8 milljörðum króna umfram fjárheimild fjárlaga ársins. „Þetta mat byggir á óbreyttri stöðu eins og hún er í dag varðandi málsmeðferðarhraða í verndarkerfinu og fráflæðisvanda umsækjenda úr úrræðum Vinnumálastofnunar. Að teknu tilliti til 780 m.kr. halla á fjárlagaliðnum frá 2023 sem flyst milli ára þá er áætluð viðbótarfjárþörf á árinu um 10,6 ma.kr. miðað við þessar forsendur.“

Sé hins vegar horft á rauntölur og gert ráð fyrir að dreifing umsókna verði í takt við árið í fyrra má, sem fyrr segir, gera ráð fyrir að fjöldi umsókna verði á bilinu 2.000 til 2.500 talsins. „Ef gert er ráð fyrir 2.500 umsóknum í ár og m.v. sama málsmeðferðartíma og fráflæðisvanda og verið hefur þá má gera ráð fyrir að útgjöld vegna þjónustu við umsækjendur verði um 11,5 ma.kr. Þó er ljóst að mjög erfitt er að áætla fjölda umsókna um vernd fram í tímann og tilheyrandi kostnað,“ segir í minnisblaðinu.

Í minnisblaðinu er enn fremur fjallað um fyrirhugaðar aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda, sem ríkisstjórnin sammæltist um 20. febrúar síðastliðinn. Segir þar að markmiðið sé að draga úr útgjöldum og forgangsraða fjármunum í málaflokknum. Fækka eigi umsóknum sem ekki uppfylli skilyrði um vernd og auka skilvirkni í afgreiðslu umsókna. Takist það, segir í minnisblaðinu, ætti að takast að draga verulega úr útgjöldum. 

„Vegna uppsafnaðs vanda í verndarkerfinu m.t.t. aukins fjölda umsókna, langs málsmeðferðartíma og fráflæðisvanda undanfarin ár er hins vegar ekki raunhæft að ætla með vissu að aðgerðirnar skili sparnaði miðað við útgjöld ársins 2023 fyrr en á næsta ári, 2025. Hver einstaklingur í þjónustu kostar um 11 þúsund krónur á dag að meðaltali. Þessir þrír liðir valda að óbreyttu og án aðgerða auknum kostnaði á árinu 2024 miðað við fyrra ár.“

Munar 6,2 milljörðum á spám

Annar kostnaður sem tilgreindur er vegna málefna útlendinga er ýmis kostnaður sem færður er undir liðinn innflytjendaráð og móttaka flóttafólks. Helsti kostnaðurinn eru greiðslur til sveitarfélaga vegna samninga um samræmda móttöku flóttafólks, húsaleiga vegna búsetuúrræða og kostnaður vegna samnings við Rauða krossinn um félagslegan og sálfélagslegan stuðning við flóttafólk. Þessi gjöld námu á síðasta ári 1.428 milljónum króna. Þá endurgreiðir ríkisstjóður sveitarfélögum fjárhagsaðstoð við þá sem hafa fengið hér alþjóðlega vernd, fyrstu tvö árin. Þær endurgreiðslur námu á síðasta ári 3.972 milljónum króna. 

Í minnisblaðinu eru settar fram tvær sviðsmyndir þegar kemur að útgjöldum á yfirstandandi ári. Annars vegar er miðað við spá Útlendingastofnunar um umsóknir um vernd. Allt í allt er þá miðað við að kostnaður nemi samtals 23.8 milljörðum króna. Sé hins vegar miðað við spá sem byggir á raun umsóknum fyrstu tveggja mánaða ársins má gera ráð fyrir að kostnaðurinn muni nema 17,6 milljörðum króna. Það er tæplega 1,4 milljarði hærri upphæð heldur en greidd var til málaflokksins á síðasta ári. 

Yfirlit útgjalda 2022-23 og áætlun um útgjöld 2024 skv. tveimur sviðsmyndum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí