Bjarni Benediktsson lofar að taka Laugalandsmálið til skoðunar

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lofað einni þeirra stúlkna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Lauglandi, áður Varpholti, í Eyjafirði því að taka mál þeirra til frekari skoðunar. Rúmt eitt og hálft ár er síðan skýrsla um starfsemi heimilisins kom út, þar sem því var slegið föstu að börn sem vistuð voru á meðferðarheimilinu hefðu verið beitt kerfisbundnu andlegu ofbeldi. Síðan þá hafa stúlkurnar sem vistaðar voru þar fá eða engin svör fengið um framhald málsins. 

Segja má að upphaf málsins megi rekja til þess þegar Stundin birti í janúar 2021 viðtöl við sex konur sem lýstu ofbeldi og harðræði sem þær voru beittar meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu á árabilinu 1997-2007. Viðtölin voru studd gögnum sem sýndu fram á ofbeldið og aðgerðarleysi opinberra aðila þrátt fyrir tilkynningar um að ofbeldi og harðræði. Stundin hélt áfram umfjöllum um málið svo mánuðum skipti, og birti viðtöl við á annan tug kvenna sem lýstu því að hafa verið beittar ofbeldi á heimilinu. Varð sú umfjöllun ásamt kröfum kvennanna sem vistaðar höfðu verið á meðferðarheimilinu til þess að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra ákvað að fela undirstofnun ráðuneytisins að rannsaka ásakanirnar. 

Sú vinna, sem tók marga mánuði, skilað niðurstöðunni sem nefnd er hér að ofan. Þótti hafið yfir vafa að börn vistuð á meðferðarheimilinu hefðu verið beitt andlegu ofbeldi með kerfisbundnum hætti af Ingjaldi Arnþórssyni, forstöðumanni heimilisins. Þá lýsti helmingur þeirra barna sem vistuð voru á heimilinu því að þau hefðu verið beitt líkamlegu ofbeldi einnig. Barnaverndarstofa brást hlutverki sínu varðandi eftirlit með heimilinu. 

Síðan þá hefur ekkert gerst í máli þeirra kvenna sem vistaðar voru á heimilinu og kallað höfðu eftir því að þeirra hlutur yrði réttur. Þeim hafa engar bætur verið boðnar né aðstoð í formi sérfræðiþjónustu, en margar þeirra hafa glímt við afleiðingar ofbeldisins allt frá því þær voru vistaðar á heimilinu. 

Konurnar sem hafa verið í fararbroddi við að sækja réttlæti fyrir sig og stallsystur sínar upplifa því að verið sé að þagga niður málið. Meðal þeirra eru systurnar Gígja og Brynja Skúladætur. Þær greindu frá því í síðustu viku að þær hefðu lokið viðtali við Kastljós Ríkisútvarpsins þar sem þær fara yfir málið allt. Sá þáttur hefur enn ekki verið sýndur. „Þó vissulega að það örli fyrir þreytu og vonleysi gagnvart því að við sem vistaðar vorum á Varpholti/Laugarlandi frá árunum 1997-2007 fáum verðskuldað réttlæti, þá er ekki í boði að gefast upp,“ skrifaði Gígja.

Í færslu á Facebook í gær greindi Anna María Ingveldur Larsen, ein þeirra kvenna sem steig fram í Stundinni og lýsti ofbeldinu á meðferðarheimilinu, því hversu erfitt hafi verið að fá áheyrn, ná sambandi við ráðamenn og að þeim hafi ýmist verið svarað seint eða ekki. Eftir að mál þeirra hefði verið í bið um langan og erfiðan tíma líði konunum sem þær séu hunsaðar. 

„Á föstudaginn síðasta tók ég mig til og ákvað að senda Bjarni Benediktsson póst um stöðu okkar mála. Á sunnudagsmorgun fæ ég póst frá Bjarna sjálfum þar sem hann lofar mér því að fara betur inn í þetta mál svo við fáum upplýsingar sem fyrst. Takk Bjarni fyrir skjót svör. Þetta kann ég að meta,“ skrifar Anna María. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí