ÖBÍ réttindasamtök harma hversu lítið tillit Alþingi hefur tekið til ábendinga og tillagna samtakanna þegar kemur að breytingum á almannatryggingakerfinu. Samtökin krefjast þess að Alþingi taki afstöðu til tillagna þeirra um kerfislegar úrbætur og bregðist við þeim.
Þetta kemur fram að umsögn ÖBÍ um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga. Segja samtökin að þó þau séu í grundvallaratriðum hlynnt þeim kerfisbreytingum sem frumvarpið mæli fyrir um sé marg enn óljóst, margt sé óunnið og fjölmargra breytinga sé þörf.
„Alþingi ber ábyrgð þegar kemur að breyttu örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Um er að ræða líf og lífskjör þúsunda einstaklinga sem eiga allt sitt undir því að breytingar sem kunna að verða gerðar tryggi mannsæmandi framfærslu og tækifæri til þátttöku í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk. Brýnt er að endanleg útgáfa frumvarpsins tryggi fötluðu fólki fjárhagslegt öryggi og sjálfstæði í eigin lífi. ÖBÍ gerir þá kröfu að vandað verði til verka við meðferð þessa máls sem varðar með svo afdrifaríkum hætti grundvallar hagsmuni meginþorra fatlaðs fólks á Íslandi,“ segir í umsögninni.
Sem fyrr segir harma samtökin hversu lítið tillit var tekið til ábendinga ÖBÍ og eru því fullkomlega ósammála þeirri fullyrðingu sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins, þar sem fjallað er um samráð, að ekki sé þörf á frekarir breytingum á ákvæðum eftir ítarlega yfirferð allra umsagna.
Framfærsluupphæð alltof lág
Í umsögn sinni tilgreina samtökin heila þrettán liði sem þau gera athugasemdir við. Meðal þeirra eru athugasemdir við að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar, né aðgerðir, hvað varðar áform um mikla aukningu atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Þá gerir ÖBÍ athugasemdir við að samkvæmt frumvarpinu fellur virknistyrkur niður við atvinnutekjur, óháð fjárhæð.
ÖBÍ telur þá nauðsynlegt að óháður aðili framkvæmi ítarlegt mat á kerfisbreytingum þeim sem mælt er fyrir í frumvarpinu í samhengi við gildandi mannréttindaskuldbindingar samkvæmt stjórnarskrá og þeim mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að.
Þá telur ÖBÍ „að sú fjárhæð sem samkvæmt frumvarpinu er áætluð til framfærslu, 380 þús.kr. eða um 325 þús. kr. eftir skatt, sé alltof lág.“
Umsögn samtakanna er mjög ítarleg og er hægt að lesa hana hér, á síðu ÖBÍ.