Færa þurfti hluta gesta á framboðsfundi Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðandi milli hæða vegna fjölmennis í dag.
Framboðsfundurinn fór fram í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Salurinn reyndist of lítill til að rúma gesti. Þurftu skipuleggjendur því að grípa til ráðstafana en samt þurftu margir að standa og má áætla að um 150 manns hafi hlýtt á kynningu Höllu.
Fram kom á að Halla væri enn full sigurvilja þótt fylgi hennar hefði ekki mælst mikið um tíma. Fylgið hefur samkvæmt skoðanakönnunum þrefaldast síðustu daga og sagðist hún hrærð vegna aðsóknarinnar á fundinn.
Sumpart ræddi Halla ekki ósvipuð mál og Katrín Jakobsdóttir á fundi Katrínar fyrr í dag á Akureyri. Jafnrétti, mikilvægi frumkvæðis, skortur á trausti sem mikið mein þar sem forseti gæti brúað bil var meðal þess sem fram kom hjá Höllu en hún flutti auk þess ítarlega kynningu á sjálfri sér og eiginmanni hennar sem stóð henni við hlið allan tímann í Hofi.
Fundargestir Höllu voru að jafnaði mun yngri en hjá Katrínu en nokkuð var um að sama fólkið sækti fundina, sem gæti bent til þess að enn séu margir óvissir um eigið atkvæði.