„Þarft og gott innlegg um rógsherferðina gegn íslenskri tungu sem nú stendur yfir.“
Þetta segir Þórarinn Eldjárn, eitt okkar besta skáld og vandfundinn maður sem hefur annað eins vald á íslenskri tungu til forna og í samtímanum.
Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur er aftur á móti á allt annarri skoðun. Hann kallar greinina sem Þórarinn Eldjárn hrósar bull og hefur víða gert athugasemdir hjá facebook-fólki sem deilir beittri grein um íslenskt mál sem líkt og eldur í sinu fer nú um Internetið.
Greinina ritar Vala Hafstað leiðsögumaður og skáld á Vísi undir yfirskriftinni:
„Útrýming mannsins á RÚV“
Þar finnur Vala að því að „óprúttinn nýlenskuher“ eins og hún orðar það hafi „gert aðför að tungumálinu okkar úr ýmsum áttum, staðráðinn í að innleiða hina kynlausu nýlensku í nafni jafnréttisbaráttu“.
„Fréttamenn RÚV hafa öðrum fremur tekið þátt í þessum hernaði,“ skrifar Vala.
„Hluti þessarar misskildu jafnréttisbaráttu fréttamannanna felst í því að útrýma orðinu maður hvenær sem færi gefst. Að sama skapi má ekki lengur tala um suma, aðra, flesta eða nokkra í hlutlausri merkingu. Í þessari jafnréttisbaráttu sinni hefur fréttamönnunum, ásamt mörgum valdhöfum og athyglisþyrstum álitsgjöfum (sem þrá að þykja víðsýnir og jafnréttissinnaðir) tekist að innleiða orð á borð við starfsfólk, vísindafólk, björgunarfólk, verkafólk, iðnaðarfólk, flóttafólk o.s.frv. í stað starfsmanna, vísindamanna, björgunarmanna, verkamanna, iðnaðarmanna og flóttamanna. Í samsettum orðum getur þessi nýjung reynst afar óþjál og valdið því að munnvatn spýtist í óþægilegu magni milli tanna, eins og þegar talað er um starfsfólksstjóra, eða valdið misskilningi eins og orðið starfsfólksfundur, sem hljómar eins og starfsfólkshundur eða -undur.“
Hún heldur áfram: „Og nú seinast er talað um Palestínufólk á RÚV. Þetta er vissulega bara byrjunin, því í allri baráttu þarf að gæta samræmis. Það er ótækt að tala um Palestínufólk í einni frétt og Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn í þeirri næstu. Það hlýtur hver maður að sjá að réttara væri að tala um Ísraelsfólk og Bandaríkjafólk. Sömuleiðis gengur ekki lengur að tala um Kanadamenn, Norðmenn og Úkraínumenn. Nei, Kanadafólk, Norðfólk og Úkraínufólk skal það heita. Annars væri hér ósamræmi í fréttaflutningi. Vandinn er hins vegar hvað kalla skal slíkt fólk í eintölu. „Ert þú Palestínufólk?“ gengur varla.“
Breytingar málsins hafa sumpart orðið til að koma til móts við hópa og sýna aukið umburðarlyndi en málið er flóknara en svo að það verði endursagt í stuttri frétt. Mjög miklar tilfinningar eru hjá notendum tungumálsins þar sem margir tala um afskræmingur á sama tíma og öðrum finnst ekkert athugavert við að gætt sé virðingar gagnvart sem flestum með breytingum á því.
„Við getum ekki lengur setið hjá og látið þá sem í blindni þrá að sýnast víðsýnir vega frekar að tungumálinu okkar. Látum nýlenskuhersveitirnar ekki komast upp með að höggva mann og annan úr orðaforða okkar,“ segir Vala.
Eiríkur Rögnvaldsson hefur víða lent í orðaskaki vegna greinarinnar og meðal annars við rithöfundinn Guðmund Andra Thorsson.
„Ég er ekki andstæðingur þess að fólk reyni að temja sér það sem nefnt er „kynhlutlaust mál“; en ég vil ekki temja mér það sjálfur og hef efasemdir um viðleitni til að færa slíka orðanotkun á hið opinbera svið. Ég biðst undan því að vera færður í íhaldsdilk af þeim sökum. Hér sem í öðru verðum við að temja okkur umburðarlyndi, virðingu og víðsýni gagnvart öðrum sjónarmiðum en þeim sem við aðhyllumst sjálf,“ skrifar Guðmundur Andri til Eiríks.
Sjá pistil Völu skálds hér:
https://www.visir.is/g/20242567022d?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR0u_7_xawGAdqRAl1_2Cm1Br0rFD_4OE34pvODlmfZ227VWYRVRcAB_FXA_aem_ARuHmFv0ai0nK95VpoyQfs2d8xcXFaeHTM0sbXoiuftfrhBK6CtiWdf11_qpF6H7C7ohRRSO0ctUOAgIWdkFf6HI