Hiti er hlaupinn í fólk eftir að skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið sýndi í morgun að bæði Halla Hrund Logadóttir og Halla Tómasdóttir njóta meira fylgis meðal landsmanna en Katrín Jakobsdóttir. Munurinn er þó innan skekkjumarka.
Margir hafa á samfélagsmiðlum gert athugasemdir við hvernig Mogginn sagði eigin frétt. Andrés Magnússon er arkitekt framsetningar upplýsinganna.
Gísli Sigurðsson fræðimaður er í hópi þeirra sem gagnrýna framsetningu Moggans gagnvart eigin frétt. Gísli bendir í facebook-færslu á að blaðinu takist að skrifa tvær stórar fréttir um þau tíðindi að Halla Hrund sé aftur orðin efst án þess að nafn Höllu Hrundar sjáist í fyrirsögn.
„Af hverju þarf misbeiting fjölmiðlavalds að vera svona ömurleg?“ Spyr Gísli.
Gísli nefnir til samanburðar hvernig Mogginn sagði frá síðustu könnun sem helst hafi mátt líkja við niðurstöður kosninga á forsíðu að hans sögn.
Nokkrir taka undir. Segir einn: „Mbl hefur valið sér frambjóðanda og hagar skrifum eftir því.“
Sem einmitt er misbeitingin sem ég er að tala um, svarar Gísli. „Þegar bara er eitt dagblað eftir í landinu þarf blaðið að sýna lýðræðinu meiri virðingu en þetta – þegar flokksblaðshugsunarhátturinn ætti að heyra sögunni til og atvinnumennska í meðhöndlun frétta að fá meira vægi.“
Ekki eru allir sammála og segir Kristján B. Jónasson: „Meira vælið. Fréttin er að þrjár konur eru hnífjafnar.“
Það virðist því stefna í sjóðheita viku og ekki ólíklegt að hart verði barist uns síðasta atkvæðið hefur verið talið aðfararnótt sunnudags.