„Þrátt fyrir að lifa mjög hógværu lífi, þá mun óbreyttur húsnæðismarkaður setja mig á götuna. Ég er ekki einn í þessari stöðu. Þúsundir öryrkja glíma við svipaðar og jafnvel erfiðari aðstæður.“
Þetta skrifar Svanberg Hreinsson, varaþingmaður Fokks fólksins og öryrki, í grein sem birtist á Vísi. Þar rekur Svanberg að samkvæmt skýrslu ÖBÍ séu öryrkjar mun líklegri en aðrir samfélagshópar til að festast á leigumarkaði, fáir þeirra eigi fasteign og þeir sem slíka eigi hafi flestir eignast hana áður en þeir urðu öryrkjar.
Húsaleiga hafi hækkað um ríflega 160 prósent á áratug, skrifar Svanberg, og með því horfi leigjendur upp á kaupmátt sinn rýrna ár frá ári. Þá þróun þekki hann vel sjálfur. „Sem öryrki greiddi ég um síðustu mánaðamót 62% af ráðstöfunartekjum mínum í húsaleigu. Síðan greiddi ég 3,5% af mínum tekjum til lífsnauðsynlegra lyfjakaupa. Sem sagt, 65,5% í leigu og lyf. Þá á eftir að greiða fyrir hita, rafmagn, síma og internet, tryggingar og mat,“ skrifar Svanberg.
Undirstaða stöðugleika sé húsnæðisöryggi og fátækt fólk á Íslandi njóti ekki slíks öryggis, skrifar Svanberg. Það þýði mikið rót, ítrekaða flutninga fjölskyldna úr einu leiguhúsnæði í annað, sem aftur þýði að börn þeirra festi ekki rætur og upplifi ekki stöðugleika. Það muni lita líf þeirra.
Núverandi húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar, sem setið hefur við völd í hartnær sjö ár, ýtir undir verðbólgu, aukna stéttskiptingu og rótleysi barnafjölskyldna, skrifar Svanberg. Fátækt vex og kaupmáttur minnkar. „Vonleysið sem öryrkjar upplifa er í boði ríkisstjórnarinnar.“