Samtökin No Borders Iceland og Samstöðutjaldið / The Solidarity tent boða til mótmæla á Austurvelli næstkomandi sunnudag klukkan 15:00.
Tilefnið er aðeins eitt, að mótmæla brottvísun Yazan, 11 ára drengs með Duchenne-heilkenni, ásamt fjölskyldu hans til Spánar, þrátt fyrir að þau hafi aldrei dvalið þar og skerðing heilbrigðisþjónustu gæti reynst lífshættuleg og haft óafturkræf áhrif á heilsu Yazans.
Duchenne samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Einstök börn, ÖBÍ réttindasamtök, Réttur barna á flótta og Tabú hafa einnig fordæmt áform stjórnvalda um að brottvísa Yazan og fjölskyldu hans.
Útlendingastofnun komst að þessari niðurstöðu, að vísa bæði Yazan og fjölskyldu hans úr landi í júlí, en þau höfðu flúið frá Palestínu fyrir ári síðan. Samkvæmt hinni alræmdu Dyflinarreglugerð sem Útlendingastofnun nýtir sér óspart, má vísa fólk úr landi ef það hefur haft viðkomu í öðru landi sem er aðili að reglugerðinni, í þessu tilfelli Spánn. Yazan og fjölskyldu bjuggu þó aldrei á Spáni og hafa þar engin réttindi né neina stöðu, heldur áttu þau aðeins stopp þar á ferð sinni til Íslands og verður þeim nú hegnt fyrir það.
Heilsufar Yazans er nöturlegt. Hann er með Duchenne-heilkenni, gríðarlega alvarlegan og arfgengan vöðvarýrnunarsjúkdóm. Allir megin vöðvar líkamans hrörna og rýrna smám saman, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðvar og af þeim sökum eru lífslíkur verulega skertar. Án nauðsynlegrar, stöðugrar og sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu er meðalaldur í kringum 19 ár, sem má lengja um eitthvað með henni.
Áður en Yazan kom til Íslands hafði hann ekki aðgang að almennilegri læknisþjónustu né fékk að taka þátt í skóla- og frístundastarfi. Í viðtali við Heimildina lýsti Yazan upplifun sinni af fyrstu komunni í Hamraskóla þar sem hann hefur gengið til náms. „Þið hljótið að hafa farið með mig til himnaríkis,“ sagði Yazan við foreldra sína, Ferial og Mohsen. Tilefnið voru hlýjar móttökur barnanna sem skrifuðu honum bréf og gáfu honum tvö tuskudýr í gjöf.
Vegna veikinda sinna hafði Yazan ekki getað notið slíkrar félagslegrar þátttöku áður.
Talsmenn fjölskyldunnar og mótmælahópar segja gríðarlega hættulegt fyrir Yazan að vera sendur úr landi, þar sem óumflýjanlega verður skerðing á heilbrigðisþjónustu hans, jafnvel allt að 18 mánaða skerðingatímabil, við komuna á Spán. „18 mánuðir án meðferðar munu valda óafturkræfum skaða sem mun verulega minnka lífsgæði drengsins og stytta líf hans,“ segir helsti sérfræðingur Íslands í Duchenne.
Þar að auki geri hvert einasta áfall geri sjúkdóminn verri og slíkur skaði er kominn til að vera, en sjúkdómurinn gengur ekki til baka, segir í tilkynningunni fyrir mótmælin.
Að veita honum vernd hérlendis er ekki aðeins aðkallandi mannúðarskylda heldur einnig mál upp á líf og dauða fyrir Yazan, segir ennfremur í tilkynningunni. Með því að vísa Yazan úr landi sé verið „að ógna lífi hans og dæma hann til óþarfa þjáninga og erfiðleika“.
„Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“
Viðburðinn má finna á Facebook
https://www.facebook.com/events/s/motm%C3%A6lum-brottvisun-yazan/1007038610956482