Piparúða sprautað í andlit liggjandi fólks

Mótmælendur við Rauða borðið

Piparúðaárás lögreglunnar á friðsamlega mótmælendur var umræðuefni við Rauða borðið í kvöld. Sex mótmælendur sem öll eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir árás með piparúða á mótmælunum á föstudaginn, sögðu frá atburðunum og sýndu sláandi myndbönd af árásum lögreglumanna á mótmælendur.

Mótmælendur höfðu komið saman fyrir utan ráðherrafund í Skuggasundi til að mótmæla aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart Gaza og þjóðarmorðinu þar.

„Það voru búin að vera þarna mótmæli í um tvær klukkustundir sem höfðu farið mjög friðsamlega fram og fóru friðsamlega fram allan tímann“, segir Daníel Þór Bjarnason, einn mótmælendanna sem mættu við Rauða borðið.

Nokkrir mótmælendur höfðu lagst niður á götuna til að hindra för ráðherrabíls og hóf lögregla að draga tvo mótmælendur með harkalegum hætti eftir götunni. Fleiri mótmælendur drifu þar að með myndavélar á lofti til að skrásetja ofbeldið og hóf lögregla þá að hrinda fólki í götuna og sprauta andlit þeirra með piparúða í miklu magni, eins og sjá má í myndböndum sem birt eru í þætti Rauða borðsins í kvöld. 

Þar gilti engu hvort fólk var að reyna að standa aftur upp eftir að hafa verið harkalega hrint, lá hreyfingarlaust á götunni eða stóð til hjá til hliðar, lögreglumenn sprautuðu í gríð og erg miklum gusum af piparúða framan í andlit mótmælenda. Jafnvel þegar Daníel sjálfur var að labba í burtu frá lögreglunni vegna fyrirmæla þeirra var hann samt eltur af öðrum lögreglumanni og sprautaður í framan.

Einnig hafi lögreglumenn staðið klofvega yfir mótmælendum sem lágu niðri og sprautað beint í andlit þeirra, þrátt fyrir að af þeim stafaði engin ógn.

„Við sjáum að þetta eru ekki bara fantar sem eru að vera kaotískir og beita sér gegn okkur, þetta er skipulögð starfsemi hjá lögreglunni og þeir fá tilmæli frá óeinkennisklæddum lögreglumanni um að nú skuli beita piparúða á friðsamlega mótmælendur.“ Slík voru orð Péturs Eggertssonar, einn mótmælendanna. 

Að mati Péturs voru lögreglumenn undirbúnir undir átök og hafði verið skipað að sprauta á mótmælendur, til þess að búa til ásýnd óeirða. Mótmælin sjálf hafi verið afar friðsamleg og gjörningur fólks sem lagðist á jörðina réttlæti ekki beitingu ofbeldis af hálfu lögreglunnar.

Á þeim tímapunkti þegar að árásir lögreglu brutust út hafði einmitt fækkað verulega í hópi mótmælenda, sem voru aðeins „örfáar hræður“ eftir. Hvernig hægt sé að réttlæta offors og ofbeldi lögreglumanna er óskiljanlegt að mati mótmælendanna. Samt hafi Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, strax séð sér fært að koma fram, verja viðbrögð lögreglu sem hæfileg og hunsa þannig sönnunargögn annars efnis; samanber margvíslegar myndbandsupptökur mótmælenda.

Á sama tíma kallaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra, eftir „að farið verði yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu á vettvangi“.

Sjón og hlustun er sögu ríkari:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí