Frosti vill að Snorri taki við sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Margir Demókratar í Bandaríkjunum eru nú í óðagoti að reyna að koma sér saman um frambjóðanda til að skipta út fyrir Joe Biden, vegna slæmrar frammistöðu forsetans í kappræðum. Svipaða dýnamík mátti heyra í röfli Frosta Logasonar í hlaðvarpsþætti sínum Brotkast, en Frosti telur Sjálfstæðisflokkinn vera alltof frjálslyndan og vegna fylgistaps þurfi að skipta Bjarna Benediktssyni út fyrir Snorra Másson.

Snorri er, ef einhverjir skyldu ekki vita, fyrrverandi blaðamaður sem rekur nú eins manns fréttasíðu og hlaðvarp þar sem hann útvarpar hægrimennsku sinni út frá sjónarhóli þjóðernishyggju, andveknismenningu og íhaldssemi.

Frosti er auðvitað langtum öfgafyllri í orðræðu sinni enda ásakaði hann Sjálfstæðisflokkinn um að fara sömu leið og aðrir „libbaflokkar“ um að reka þá stefnu að réttindi minnihlutahópa „eigi að trompa réttindi meirihlutans“ og beindi þá skotspónum að transfólki.

Snorri Másson er langtum yfirvegaðri í framsetningu sinni, kannski þess vegna einmitt hentugri til valskosts sem pólitíkus, þó hann hafi ekki farið varhluta af öfgum í málflutningi sínum. Þannig fannst honum eðlilegt að karlmenn ættu að afla peninganna fyrir heimilið, það væri í þeirra eðli og konur væru betur geymdar heima við. Þetta kom fram í ótrúlega lágkúrulegu spjalli Snorra og Bergþórs, bróður Snorra, í öðru hlaðvarpi þeirra, Skoðanabræður, fyrir nokkrum mánuðum þar sem þeir ræddu við Patrik Atlason, betur þekktan sem tónlistarmanninn Prettyboitjokko.

„Nú kann ég orðið vel við Bjarna Benediktsson“, sagði Frosti, hann hafi ekki gert það áður, „en mér finnst hana hafa vaxið, flottur stjórnmálamaður“. Það sé hins vegar kominn tími til að Bjarni stígi til hliðar vegna afleits fylgis flokksins, en ekki síður vegna „frjálslyndrar“ stefnu flokksins, sem Frosti segir slæma. Það er auðvitað alls kostar ekki ljóst hvað sé svona frjálslynt við stefnu Sjálfstæðisflokksins, en sjálfsagt er Frosti að reyna að sveifla orðræðunni enn lengra til hægri en orðið er, til að þjóna eigin hagsmunum og hugðarefnum.

Frosta finnst að Bjarni ætti að tilnefna Snorra Másson sem arftaka sinn, líkt og Samfylkingin gerði með Kristrúnu Frostadóttur, „það yrði brilljant múv og það myndi rífa upp fylgi Sjálfstæðisflokksins“. Snorri myndi hrífa unga kjósendur en ekki síst þá eldri, „hann er svona draumatengdasonur allra eldri mæðra“, sagði Frosti. „Hann veit hvað woke-ið er slæmt, hann veit að íslensk þjóðmenning er eitthvað sem er vert að varðveita.“ Snorri myndi vernda íslenska tungu og „fjölskyldueininguna, hann er mikið þar“, skaut meðstjórnandi þáttar Frosta að.

Þá er það ljóst að draumaprins öfgahægrisins, ef Frosti Logason er einhvers konar endurspeglun á þeim undarlega hópi, er fundinn. Ritstjórinn sjálfur, Snorri Másson gæti orðið frelsarinn. Sem er auðvitað mjög ólíklega að fara gerast, enda röflið í Frosta almennt ekki í tengingu við raunveruleikann.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí