Misheppnuð valdaránstilraun í Bólivíu

Bólivía 26. jún 2024 Tjörvi Schiöth
Hermenn-Bolivia-Coup

Associated Press greinir frá:

Herforinginn Juan José Zúñiga reyndi á miðvikudag að gera valdarán í Bólivíu gegn forsetanum Luis Arce. Hersveitir undir hans stjórn brutust inn í forsetahöllina í höfuðborginni La Paz, en valdaránið virðist hafa misheppnast. Herlið á brynvörðum farartækjum hafði safnast saman í borginni og tók yfir Plaza Murillo torgið fyrir framan forsetahöllina. En eftir að valdaránið rann út í sandinn söfnuðust stuðningsmenn Arce forseta saman á torginu og veifuðu fánum Bólivíu.

Luis Arce forseti Bólivíu

Sagt er að Arce forseti hafi mætt Zúñiga, leiðtoga valdaránsins, á gangi forsetahallarinnar, eins og sést á myndbandi sem sýnt var í bólivíska sjónvarpinu, þar sem forsetinn segir: „Ég er yfirmaður þinn. Ég skipa þér að draga þig til hlés, ég mun ekki leyfa þér að óhlýðnast mínum skipunum.“

Áður en herforinginn Zúñiga réðist inn í forsetahöllina hafði hann sagt við fjölmiðla: „Það mun verða ný ríkisstjórn. Landið okkar getur ekki haldið svona áfram”.

Reuters greinir frá því að Zúñiga hafi nýlega verið leystur frá stöðu sinni sem herforingi áður en hann hóf valdaránið. Reuters segist einnig hafa það eftir vitnum að hersveitir Zúñiga hafi notað brynvarið farartæki til að brjóta niður dyrnar á forsetahöllinni áður en þeir réðust inn.

Evo Morales, fyrrverandi forseti Bólivíu og samflokksmaður núverandi forseta Arce, í Sósíalísku hreyfingunni (Movimiento al Socialismo), fordæmdi valdaránstilraunina á Twitter:

Við fordæmum að hópur af Challapata sérsveitinni „Mendez Arcos“ hafi tekið yfir Plaza Murillo torgið með leyniskyttum. Þetta virðist benda til þess að þeir hafi undirbúið valdaránið fyrirfram. Ég bið fólkið með lýðræðislegu ákalli að verja heimalandið fyrir herflokkum sem vinna gegn lýðræði og fólkinu í landinu.

Annar fyrrverandi forseti Bólivíu, hin hægrisinnaða Jeanine Áñez, hefur einnig fordæmt valdaránstilraunina. Það er þrátt fyrir að hún er núna stödd í fangelsi og aðilarnir sem fóru fyrir valdaráninu kröfðust þess að hún væri látin úr haldi.

Þá hafa stéttarfélög í Bólivíu einnig fordæmt valdaránstilraunina, og boðuðu til allsherjar verkfalls til stuðnings stjórnvöldum.

Á þessu myndbandi má sjá Bólivíumenn í La Paz fagna því að valdaránið hafi misheppnast og ríkisstjórnin haldið velli:

Samkvæmt nýjustu fréttum sagði Arce forseti það á blaðamannafundi að valdaránsforinginn Juan José Zúñiga hafi verið handtekinn af eigin hermönnum, eftir að þeir áttuðu sig á því að hann væri að framkvæma valdarán gegn ríkisstjórninni. Þeir hermenn sem eftir eru hafa snúið aftur til herstöðva sinna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí