Össur segir Ögmund slátra Vg: „Þetta er allt saman rosaleg lesning“

„Kjarnann í umfjöllun hans um flokkana má ef til vill súmmera upp með svofelldum hætti eftir hraða lesningu: Rekunum er endanlega kastað á VG og bókstaflega sagt að tætlurnar sem eftir lifa séu tryggilega staðsettar hægra megin við Samfylkinguna. Þetta eru endanleg skil, og aldrei grær um heilt aftur. Fyrir honum er VG farið veg allrar veraldar.“

Þetta skrifar Össur Steingrímsson, fyrrverandi ráðherra, í pistli sem hann birtir á Facebook þar sem hann fer yfir og greinir pistil sem annar fyrrverandi ráðherra, Ögmundur Jónasson, birti á föstudaginn. Össur segir að Ögmundur risti VG bókstaflega í ræmur en undir niðri sé þetta einnig persónulegt uppgjör við Steingrím. Pistill Ögmundar hefur vakið þónokkra athygli en hann má lesa í heild sinni hér.

Hér fyrir neðan má svo lesa það sem Össur hefur um þann pistil að segja.

Tími Ögmundar mun koma…

Í svissnesku Ölpunum hristist allt og skelfur eftir rosalegan pistil Ögmundar Jónassonar sem birtist á heimasíðu hans og er endanlegt uppgjör Ögmundar við VG.

Það hefur verið lengi í fæðingu. Upptakturinn birtist í ritdómi um bók mína, Ár Drekans, fyrir réttum tólf árum, þar sem Steingrímur J. Sigfússon var einkum tekinn til bæna, og frávik hans frá upphaflegri stefnu þeirra tvímenninga. En saman gerðu þeir VG að stórveldi um hríð.

Á upphafsárum stórveldisskeiðs flokksins þegar flokkurinn mældist stundum með tíu sinnum meira fylgi en í dag fannst mér Ögmundur ekki eiga minni hlut í því en fyrrum fóstbróðir hans. Í bók hans, Rauða þræðinum, var uppgjörið enn lengra þróað og heldur bætt í með eftirmála við seinni útgáfu þeirrar stórmerku bókar.

Pistill Ögmundar á erindi við alla sem hafa snefil af áhuga á stjórnmálum – og hina líka. Hinn gamli stjórmálaskörungur ristir VG bókstaflega í ræmur, rekur hvernig flokkurinn hefur í öllum aðalstefnumálum orðið uppgefið rekald – og kastar að síðustu rekunum einsog þegar sjórekið hræ er huslað.

Ögmundur blæs á þá söguskýringu að hægt sé að kenna samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn einu saman um mistökin sem flokknum hefur orðið á í átta ára herleiðingu með íhaldinu. Í dag speglast þau í fylgi í kringum 3%. VG er nú orðið minnsti flokkurinn, minni en Sósíalistar Gunnars Smára. Ögmundur segir svart á hvítu að skýringa á ótrúlegri hignun VG sé ekki síst að leita í hugsjónaleysi VG og hugsjónasölu í skiptum fyrir völd.

„Nánast hvar sem borið er niður fylgdi VG stefnu sem gekk þvert á grunngildi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs“ – segir Ögmundur og rekur miskunnarlaust hvert dæmið af öðru. Langri upptalningu lýkur hann á því sem næst stendur í tíma: „…nú síðast með tillögu um einkavæðingu fjarðanna í hendur fjárfesta (norskra að uppistöðu til)…“

Fylgisspekt VG við Nató hin seinni árin standa einsog fleinn í holdi hins gamla hernaðarandstæðings: „Og aldrei er NATÓ (sem flokkurinn þykist vera á móti) gagnrýnt, þvert á móti lofsungið og tekið undir með hernaðarhyggju…bæði í orði og verki einsog vopnakaup til manndrápa í Úkraínu eru til marks um. Aldrei var talað fyrir friði og friðsamlegum lausnum…“

Þetta er allt saman rosaleg lesning, ekki síst frá Ögmundi sem líklega réði úrslitum um bæði stofnun og þróun VG fyrstu árin. Undir niðri er pistillinn líka persónulegt uppgjör við Steingrím, sem réði framhaldinu, m.a. samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn, en það var forsenda þess að hann gæti endað feril sinn sem forseti þingsins. Sá forsetastóll er að reynast dýrkeyptur á lokaspretti flokksins.

Utan frá var fróðlegt, og ekki alltaf gaman, að fylgjast með valdatafli innan forystu VG og sjá hvernig Steingrímur steig Ögmund smám saman út úr hringnum. Um síðir fannst mér Ögmundur enda sem hálfgildings jaðarmaður í flokknum sem hann átti ekki sístan þátt í að gera ótrúlega sterkan um hríð. Sú þróun hófst löngu fyrir Icesave.

Sjálfur átti ég náið samstarf við Ögmund, bæði sem þingflokksformaður í stjórnarandstöðu, og síðar í ríkisstjórn. Mörgum kann að þykja það ótrúlegt – ekki síst með hliðsjón af því hvar við vorum staðsettir á ESB-ásnum – en á okkar samstarf bar aldrei skugga. Hann kom mér aldrei á óvart, og sveik aldrei orð sín um eitt eða neitt gagnvart mér. Þegar ég hætti í stjórnmálum fannst mér hann vera einn besti og heiðarlegasti samstarfsmaðurinn sem ég hafði notið. Í því ljósi gat ég aldrei skilið þróunina innan VG sem skilaði honum að lokum út á kant.

Afstaða hans til persóna og leikenda innan VG breytir hins vegar engu um það, að greining hans á þróun flokksins og fylgi, er býsna sannfærandi. Hann lýsir henni frá sjónarhóli eindregins vinstri sinna, sem alltaf var hugsjónum sínum trúr, vissulega valdsækinn og löngun til áhrifa ólgaði í blóðinu; mér fannst hann alltaf líta á sig sem fæddan til forystu enda kominn af bæði landshöfðingjum og harðsnúnum vinstri mönnum.

Kjarnann í umfjöllun hans um flokkana má ef til vill súmmera upp með svofelldum hætti eftir hraða lesningu: Rekunum er endanlega kastað á VG og bókstaflega sagt að tætlurnar sem eftir lifa séu tryggilega staðsettar hægra megin við Samfylkinguna. Þetta eru endanleg skil, og aldrei grær um heilt aftur. Fyrir honum er VG farið veg allrar veraldar.

Ögmundur telur hægt að vinna með Framsókn því þar blakti enn týra á samvinnuhugsjóninni. Framsókn kikni þó alltaf í hnjánum þegar hún starfar með Sjálfstæðisflokknum en sé ágæt í samvinnu til vinstri: „Því vinstri sinnaðri sem samstarfaðilarnir eru þeim mun betur lifnar samvinnuhugsjónin.“ Þetta ber að lesa þannig að Framsókn sé í lagi ef menn einsog Ögmundur séu líka við stýrið!

Samfylkingin fær óvæntan heilbrigðisstimpil frá Ögmundi sem ágætis hefðbundinn krataflokkur – og þó hann segi það ekki beinlínis er hún greinilega alltaf í óheilbrigðu daðri við praktískar hægri lausnir. Hún er samt á vetur setjandi – að dómi Ögmundar: „En sósíaldemókratisminn geymir sitthvað verðmætt um félagsleg gildi sem hann hefur sinnt vel og við flest á þessum væng stjórnmálanna virðum og viljum vera þar krötunum samstiga.“ Þegar hér var komið lestri felldi ég eiginlega tár!

Ögmundur bætir því við að mikill sláttur sé nú á Samfó „…og er það hið besta mál. En rúmar hún okkur…?“ Svo telur hann upp alls konar mál, sem ég fæ þó ekki betur séð en við Kristrún Frostadóttir séum ekki mjög ósammála honum um. Ögmundur á nefnilega erfitt með að trúa því sjálfur að undir niðri er hann ekkert annað en vinstri sinnaður jafnaðarmaður.

Greiningunni á Samfó lýkur hann með dásamlega kryptískum hætti: „Það þarf ekki að hugsa málin lengi til að sjá í hendi sér að Samfylkingin dugar ekki ein og sér á félagshyggjuvængnum.“

Þannig kemst Ögmundur að þeirri niðurstöðu að það sé algjörlega mögulegt og í góðu lagi fyrir „okkur“ að vinna með Framsókn og Samfylkingu í ríkisstjórnum svo fremi tryggt sé að menn einsog hann séu til staðar til að leiðrétta innbyggðar kompásskekkjur. – Þetta er „vintage“ Ömmi!

Við lestur þessa vel ritaða pistils vaknar sú hugsun að í ljósi fyrirsjáanlegra endaloka VG með þeim hætti sem Ögmundur lýsir, blakti í hugskoti hans efi um að það hafi verið rétt hjá þeim Steingrími að kljúfa sig frá stofnun Samfylkingarinnar árið 2000 og búa til VG. Ögmundur hefur nefnilega alltaf verið maður hinnar breiðu kirkju, alltaf notað rödd sína í minnihluta til að flytja umræðuna um set, og haft þannig miklu meiri áhrif á söfnuðinn en flestir. Ögmundur er maður sem þarf stóra prédikunarstóla.

Sósíalistaflokkurinn er honum hugstæður – og honum stendur Ögmundur vitaskuld næst. Hann dissar þó Gunnar Smára sem leiðtoga með ansi grellnum hætti þegar hann segir: „Sósíalistaflokkurin þyrfti að spyrja hvað valdi því að enn sem komið er nær hann ekki fluginu þrátt fyrir að hafa lyft sannkölluðu grettistaki í umræðu í þjóðfélaginu…“ Ég tek þetta a.m.k. sem ádeilu á forystu Sósíalista.

Í kjölfarið lofar svo Ögmundur frammistöðu Sönnu og sósíalista í borginni, sem varla er hægt að túlka öðru vísi en sem enn meira diss á forystuna í landsmálum. Mér virðist því sem Ögmundur líti svo á að Gunnar Smári þurfi að víkja sem sjálfskipaður leiðtogi Sósíalista til að þeir eigi sjens á gegnumbroti.

Í lok að mörgu leyti frábærrar greiningar Ögmundar á flokkunum og stöðunni á vinstri vængnum, vantar hins vegar niðurstöðu. Hann treystir sér ekki til að lýsa Sósíalistaflokknum sem arftaka VG með glóð og arfleifð byltingarinnar í höndum sér. Niðurstaða hans er að vinstri vængurinn eigi að einhenda sér í að efla Samstöðina!

Ég er því miður staddur á flugstöð á leið til Kosovo og get ekki haldið þessum langhundi áfram, en í huga mér er bara ein rökræn niðurstaða á greiningu Ögmundar. Hugsanlega vakir hún líka í hugskoti Ögmundar, en hann of hógvær til að setja hana í orð. Hún er þessi:

Ef VG er jafn endanlega dautt og Ögmundur færir rök fyrir, og Sósíalistaflokkinn skortir leiðtoga til að brjótast í gegnum fylgislágmörk, þá þarf einhvern með hugsjónir, leiftrandi karisma og óþrjótadi elju, til að leiða flokkinn og búa til nýja vinstri andstöðu í samfélaginu og á Alþingi.

Sá maður er vitaskuld Ögmundur sjálfur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí