Rifrildisleikrit um sölu áfengis á meðan fjölmörg stór mál bíða á þingi

Mörgum málum ríður á að koma í gegnum Alþingi fyrir ríkisstjórnarflokkana. Þinglok eiga að vera í lok vikunnar, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur hótað að framlengja þingið og freistar þess þannig að þröngva málum í gegn, málum sem að samstarfsflokkunum í Vinstri grænum og Framsókn hafa vonast til að tefja. Lítil samstaða virðist þannig vera innan ríkisstjórnarflokkanna um útlendingalög, frumvarp um lagareldi og sölu Íslandsbanka.

Þegar svo býr við að flokkarnir vilja forðast óþægilega umræðu um eigin óstarfhæfni þá dúkkar enn aftur upp uppáhalds mál Alþingis, sem notað er trekk í trekk til að afvegaleiða umræðuna og dreifa athygli fjölmiðla sem og almennings. Sala áfengis í búðum.

Flest það fólk sem leggur það á sig að lesa fréttir stóru miðlanna hefur vafalaust tekið eftir því undanfarna daga að hávært rifrildi á sér nú stað á milli Sigurðar Inga, fjármálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. 

Efniviðurinn er í raun bara ágreiningur flokkanna tveggja um stefnu í söluheimildum á áfengi, en Framsókn, sem og Vinstri græn, vilja halda ríkiseinokun á sölu áfengis í gildi, á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn er hrifnari af einkaframtakinu eins og fyrri daginn og vill leyfa lausasölu þess í búðir.

Málið hefur ítrekað komið upp aftur og aftur í fjöldamörg ár en aldrei nokkurn tímann þokast í nokkurra átt, enda virðist það best til þess fallið að veita stjórnmálamönnum eitthvað til að rífast yfir og vekja athygli á þegar pólitísk gúrkutíð ríkir annars vegar eða þegar eitthvað óþægilegt mál krefst dreifðrar athygli.

Mjög margt mikilvægt er á borði þingsins þessa vikuna. Gríðarstór mál sem varða bæði almannahag og mjög skiptar skoðanir eru á bæði innan og utan ríkisstjórnarinnar. Það er því mjög athyglisvert að í ljósi anna þingsins og ráðherranna, sé þessu máli þröngvað aftur á yfirborðið.

Sigurður Ingi sendi erindi á lögregluna þar sem hann benti á að áframhaldandi þróun á því að smásala áfengis sé byrjuð að festa rætur sínar grafi undan lögum og sé því mögulega lögbrot. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur líka blandað sér í málið og segir erindi Sigurðar Inga hafa verið vegna bréfs síns til hans um málið.

Guðrún Hafsteinsdóttir gagnrýndi Sigurð Inga harkalega vegna erindisins og ásakaði hann um að fara gegn stjórnarskránni og réttarríkinu með því að hafa pólitísk afskipti af rannsókn lögreglu. 

Framferði Sigurðar Inga má gagnrýna með þeim hætti sannarlega, en athyglisvert er að samráðherra hans ásaki kollega sinn um slíka aðför að stjórnkerfinu.

Hvort þeim sé nokkur skapaður hlutur alvara með þessu er óljóst, en greinilega gripu þau bæði, Sigurður og Guðrún, tækifærið föstum höndum til að tala um eitthvað annað en óstarfhæfan meirihluta þeirra og umdeild mál á þingi sem alger óvissa ríkir um. Þau varð þeim ekki erindi sem erfiði þar enda varpar þessi ágreiningur þeirra bara enn frekara ljósi á óeininguna á stjórnarheimilinu og það að flokkarnir setji sig í stellingar fyrir kosningar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí