Staðan á Alþingi og þá sérstaklega Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var til umræðu í þættinum Synir Egils á Samstöðinni í gær, ásamt nýliðnum forsetakosningum.
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar hafði orð á því að ósigur Katrínar Jakobsdóttur í forsetakosningunum myndi óumflýjanlega hafa þau áhrif að VG þyrfti alvarlega að fara að hugsa sinn gang upp á framtíðina.
Margir helstu spekúlantar og leiðtogar á þingi, þar á meðal forysta VG, höfðu að öllum líkindum gert ráð fyrir sigri Katrínar, sem gæti varðveitt stöðugleika ríkisstjórnarsamstarfsins.
Helga Vala sagði það líklegasta í stöðunni að Svandís Svavarsdóttir myndi hefja atlöguna að samstarfsflokkum sínum í tilraun til að taka við leiðtogakeflinu innan VG. „Svandís sprengir í haust“, sagði Helga Vala. Halla Tómasdóttir verði því í nákvæmlega sömu stöðu og Guðni árið 2016, nýkjörin að eiga við sprengda ríkisstjórn. „Af því að Svandís veit sem er, að það verður að sprengja ríkisstjórnina ef VG ætlar að eiga möguleika á að halda sér inni á þingi í næstu kosningum, af því að Katrín er farin og þau verða að fara aftur í ræturnar.“
Helga telur engann færann annan um það í flokki Vinstri grænna en Svandís, „hún fer í kvenfrelsið, umhverfið og náttúruna, allt það og vinstri kjarnann sinn.“
Gunnar Smári, blaðamaður og einn þáttastjórnenda var því alls kostar ekki sammála, „ég held hún sé á allt öðrum stað í lífi sínu, þetta er sex ára þrotlaus barátta“. Langan tíma tæki að endurreisa flokkinn, í sams konar átaki og Samfylkingin þurfti að standa í, Svandís væri hreinlega ekki í stakk búin fyrir það.
Atli Þór Fanndal tók sumpart undir með Helgu Völu, „Svandís er það merkilegur stjórnmálamaður, þó hún fari í taugarnar á fólki, mest á Sjálfstæðismönnum“. Eini fyrirvarinn telur Atli vera að „það eru komin svo mörg ár síðan maður var hættur að geta spáð fyrir um hvað VG gerir, maður skilur ekki orðið í hvaða stemningu þau eru.“
Gunnar Smári bætti því að honum fyndist afar hæpið „að Svandís geri uppgjör við pólitískan arm Katrínar Jakobsdóttur, dream on“.
Helga Vala segir nauðsyn kenna þarna nöktum flokki að spinna, Svandís þurfi „að bjarga Vinstri hreyfingunni grænt framboð frá hægfara dauða, hún getur ekki farið að óbreyttu í kosningar, af því þau munu þurrkast út“.
„Hún getur ekki farið að óbreyttu í kosningar, af því þau munu þurrkast út“
Helga Vala Helgadóttir
Gunnar Smári benti þá á að þar þyrfti mikil stefnubreyting að verða, „Svandís er búin að segja við okkur í tíu ár að við séum hólpin af því að við séum í höndunum á Katrínu Jakobsdóttur. Ætlar hún þá að segja að stefna Katrínu Jakobsdóttur hafi verið kolröng?“ Þar fyrir utan gæti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, núverandi formaður Vinstri Grænna, vel hugsað sér að slást um leiðtogasætið.
Guðmundur hefur þannig nú þegar ybbað gogg við Guðrúni Hafsteinsdóttur vegna beitingu lögreglunnar á piparúða gegn mótmælendum, þannig að ljóst er að eitthvað byrjað að kvarnast úr samstöðunni sem stjórnarliðar hafa reynt að útvarpa, allt frá hópeflisferð sinni á Þingvelli í október síðastliðnum.
Staðan á þingi verður í það minnsta spennuþrungin, enda mörg stór mál sem bíða afgreiðslu, þar á meðal um lagareldi og útlendingamál, sem eru til þess fallin að valda miklum deilum, þar á meðal innan stjórnarflokkanna.
Innviðaskuldir eru miklar, húsnæðismál í ólestri, samdráttur í fiskveiði og ferðamennsku á sjóndeildarhringnum og óvíst er með framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar.
Fylgi Vinstri grænna flakkar í dag um og við 5% þröskuldinn og gæti flokkurinn því raunverulega dottið af þingi ef ekkert er að gert. Jafnvel þótt flokkurinn haldi sér inni þá gæti staðan verið álík stöðu flokksins í borginni þar sem særður VG undir forystu Líf Magneudóttur neitaði að halda áfram í samstarfi við meirihlutann í borginni eftir slæman gang í síðustu sveitarstjórnarkosningum og sleikir sár sín.