Blessað ævintýrið sem er nýfrjálshyggjusamfélagið okkar ætlar aldrei að toppa sig í fáránleika. Líkhús í Reykjavík og Akureyri hafa rekið sig með halla í áratugi að sögn framkvæmdastjóra Kirkjugarða Akureyrar. Lagabreyting sem leyfir líkhúsum innheimtu þjónustugjalda verður lögð til á Alþingi í haust.
Kvartað hefur verið undan fjárskorti í rekstri líkhúsa lengi, en þannig er mál með vexti að slíkur rekstur á sér stað með fjármögnun ríkisins eingöngu og líkhúsum er ekki heimilt að rukka þjónustugjöld til að standa straum af rekstrinum.
Því verður mögulega breytt ef marka má frétt RÚV um málið, en á haustþingi verður lögð til tillaga um að heimila slíkt, að öllum líkindum af hálfu dómsmálaráðherra.
Nú liggur við að ríkið gæti hæglega fjármagnað reksturinn sjálft eins og það hefur gert lengi, þó auðvitað illa og af skornum skammti ef marka má rekstraraðilana.
Nei það er augljósari lausn af hálfu hins opinbera að rukka almenning þjónustugjöld fyrir þann óskunda að hafa dáið og vera ríkinu til trafala sem lík. Rukka ættingja og skyldmenni sem syrgja um gjöld, frekar en að fjármagna líkhúsin sjálf. Seilast í vasa syrgjenda frekar en í vasa auðvaldsins.
Greinilegt er að skattlagning á almenning er ekki næg, setja þarf á fleiri skatta, fyrirgefið þjónustugjöld. Það líka af hálfu sjálfskipaðs andstæðings skatta, Sjálfstæðisflokknum, sem veigrar sér raunar aldrei við skattheimtu á almenning, aðeins skattheimtu á hina ríku og valdamiklu.
Þetta kemur líka á tíma þar sem kjarnasamningar hafa nýlega verið undirritaðir, meðal annars með þeim loforðum að hið opinbera myndi halda aftur af hækkunum á gjaldskrám og aukinni gjaldtöku til að stemma stigu við verðbólgu. Það entist ekki lengi.