Stefán Guðmundsson hvalaskoðunarmaður á Húsavík gefur lítið fyrir fagmennsku opinberra starfsmanna og afleysingafólks í löggunni í heimabæ sínum. Það má lesa út úr hnyttnum skrifum Stefáns í pistli á facebook.
Margir Íslendingar hafa póstað myndum á samfélagsmiðla af gærkvöldinu sem var einkar fagurt víða og stórbrotið sólarlag víða um land. Stefán var einmitt að njóta kyrrðarinnar, fegurðarinnar og sólarlagsins og tók eftir að tjaldsvæðið á Húsavík var yfirfullt í logninu og sat fólk úti og gladdist yfir fegurð alheimsins.
En bar þá að þegar síst skyldi vinnuvél með götusóp. Umsjónarmaður fór að sópa götuna af miklum móð en ekki vildi betur til en svo að allt rykið þyrlaðist upp og lagðist yfir nágrennið, sérstaklega tjaldstæðin líkt og myndir Stefáns sýna.
Tjaldstæðisgestir görguðu og góluðu þegar rykið lagðist yfir þá en máttu sín einskis. Áfram sópaði Húsvíkingurinn. Þegar lögreglubíll kom aðvífandi taldi Stefán að málið væri leyst. En svo var bara alls ekki.
„Í því rennur lőgreglubíll međ byrjendum framhjá okkur í gegn um rykmőkkinn og ég tel öruggt ađ einhver hafi kvartađ og òskađ liđsinnis. Mér skjátlađist. Lőgreglan hélt áfram uppá Gónhól…líklega til ađ virđa sólarlagiđ fyrir sér,“ segir Stefán.
Það var ekki fyrr en Stefán spurði sjálfur götusóparann hvað hann væri að pæla, hvort hann heyrði ekki hróp og köll fólksins á tjaldstæðinu og sæi ekki handapatið sem að maðurinn hætti að sópa.
En hvaða lærdóm dregur Stefán af afferunni:
„Sóparinn var ráđinn til ađ sópa óháđ ađstæđum eđa skynsamlegri hugsun. Lőgreglan var ekki ráđin til ađ hafa afskipti af gőtusópara, þótt hann væri ađ kæfa alla í rykmekki á yfirfullu tjaldsvæđi í dýrđarveđri,“ er niðurstaða hvalaskoðunarmannsins.