Starmer vinnur afgerandi meirihluta með þriðjungi atkvæða

Sigur Keir Starmer í gær byggir ekki á fylgissveiflu til Verkamannaflokksins heldur á hruni Íhaldsflokksins, veikingu Skoska þjóðarflokksins og miklu fylgi Umbótaflokks Nigel Farage. Verkamannaflokkurinn fær 2/3 þingmanna út á 1/3 atkvæða, kosningakerfið nánast tvöfaldar atkvæðin sem flokkurinn fékk.

Ef við skoðum fylgistölur flokkanna sem bjóða fram á landsvísu og berum saman við síðustu kosningar er staðan þessi (breyting frá kosningunum 2019 innan sviga)

Verkamannaflokkurinn: 33,9% (+1,8 prósentur)
Íhaldsflokkurinn: 23,7% (–19,9 prósentur)
Umbótaflokkurinn: 14,3% (+14,3 prósentur)
Frjálslyndir demókratar: 12,2% (+0,6 prósentur)
Græningjar: 6,8% (+4,2 prósentur)

Þarna má sjá að Verkamannaflokkurinn er sáralítið að auka fylgi sitt frá afhroðinu 2019 þegar Boris Johnson leiddi Íhaldsflokksins til stórsigurs. Keir Starmer er því ekki að laða kjósendur að Verkamannaflokknum. Það má sjá á góðri kosningu Græningja, sem ná til sín hluta af róttækari kjósendum Verkamannaflokksins sem hrekjast undan stífri hægri stefnu Starmers og kratanna sem hafa tekið flokkinn yfir.

Ef við berum árangur Starmers saman við fyrri kosningarnar Jeremy Corbyn þá fær Starmer nú 9,6 milljón atkvæða en Corbyn fékk 12,9 milljón atkvæða. Starmer fær nú 33,9% en Corbyn fékk 40,0%, 6,1 prósentum meira fylgi. Tony Blair fékk minnst 35,2% en mest 43,2%.

Sigurinn í nótt er því ekki sigur Verkamannaflokksins í þeim skilningi að þjóðin fylki sér á bak við flokkinn. Fylgið sem Íhaldsflokkurinn missti frá sér fer mest til Umbótaflokksins, eitthvað til Verkamannaflokksins sem tekur líka fylgi frá Skoska þjóðarflokknum, en sem tapar síðan fylgi hinum megin til Græningja og Umbótaflokksins, sem lék eftir leik Boris Johnson 2019 og náði til sín umtalsverðu af fylgi láglaunafólks sem sögulega voru dyggt stuðningsfólk Verkamannaflokksins. Stíf hægri stefna Keir Starmer jók því í reynd ekki fylgi flokksins meðal landsmanna.

En Verkamannaflokkurinn vinnur hins vegar afgerandi meirihluta á þingi, 63% þingsæta fyrir 34% atkvæða. Í sjálfu sér gæti flokkurinn gert hvað hann vill, hann hefur til þess stuðning á þingi. En stefnuskrá hans er í raun loforð um að breyta litlu, halda sig að mestu við stefnu Íhaldsflokksins í ríkisfjármálum: Ekki draga til baka skattalækkanir nýfrjálshyggjuáranna til hinna ríku, beita aðhaldi og skera niður.

Þetta er stefna sem gróf undan Íhaldsflokknum og eyðilagði, þótt fréttaskýrendur séu uppteknari af sundurlyndi meðal forystufólks og öðru sem fréttamiðlar hafa mestan áhuga á. Þetta sundurlyndi skapaðist hins vegar vegna minni stuðnings almennings við stefnu flokksins sem brýst fram sem ósætti í forystunni, sem skynjar þörf á breytingum en hefur ekki lýðræðislegan þrótt til að breyta stefnunni.

Keir Starmer mun því leiða ríkisstjórn sem tekur við óvinsælli stefnu en vonar að almenningur kyngi henni nú þar sem nýtt fólk er komið í brúnna og stjórnarandstaðan er í sárum. Sjálfur nýtur Starmer lítils traust meðal landsmanna, hann þykir þurr og ósjarmerandi, talar eins og hann sé ekki að segja hug sinn og sé með einhver plott í gangi um að ná einhverju fram sem hann þorir ekki að orða upphátt. Hann mun því án efa lenda fljótt í vandræðum í hinni pólitísku umræðu.

Boris Johnson og Íhaldsflokkurinn mættu til þings með yfirgnæfandi meirihluta þingmanna eftir síðustu kosningar. Það dugði því liði ekkert og kjörtímabilið varð það versta í sögu flokksins, hvort sem horft er til innri mála flokksins eða ástandið í samfélaginu. Bretland er á hnignunarstigi af mörgum ástæðum. Langvarandi sveltistefna stjórnvalda gagnvart grunninnviðum og -kerfum samfélagsins og mikilvægustu stofnanirnar hafa verið holaðar að innan með útvistun og með því að flytja þær í rándýrt leiguhúsnæði einkaaðila. Hlutfallslega minni fjárframlög skattgreiðenda fara því í æ ríkara mæli til að fóðra hagnaðardrifin einkafyrirtæki. Og þegar Verkamannaflokkurinn segist ætla að leggja áherslu á verðmætasköpun er hann að lýsa því yfir að hann ætlar að halda þessari vitleysu áfram. Verkamannaflokkurinn er engu minni óligarkaflokkur en Íhaldsflokkurinn, flokkur sem vinnur að því að auðga enn frekar þau sem eru rík fyrir, enda studdi The Sun og The Sunday Times Verkamannaflokkinn í liðnum kosningum.

Og andstaðan sem Keir Starmer mætir verður ekki aðeins Íhaldsflokkurinn í sárum, en í leit að nýju upphafi, heldur líka þingmenn Umbótaflokksins sem munu gagnrýna nýfrjálshyggju Starmer út frá sjónarhóli lágtekjufólks. Og svo mun Jeremy Corbyn og fjórir aðrir þingmenn sem kosnir voru á þing vegna stuðnings síns við málstað Palestínu gagnrýna Starmer fyrir stuðning hans við þjóðarmorðið á Gaza, sem hann styður með þögninni og aðgerðarleysi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí