Hvort eftirvæntingu megi kalla er óvíst, en biðinni er þó lokið þar sem Donald Trump tilkynnti varaforsetaefni sitt á ráðstefnu Repúblikanaflokksins í gær. Þingmaðurinn J.D. Vance varð fyrir valinu, en hann ásamt tveimur öðrum, ríkisstjóra Norður-Dakóta Doug Burgum og þingmanninum Marco Rubio, þótti líklegastur til að verða fyrir valinu.
Vance er öfgamaður, það mikið er víst. Hann skaust fram á sjónarsviðið með sjálfsævisögu sinni Hillbilly Elegy árið 2016, þar sem hann fjallaði meðal annars um fátæktina og samfélagslegu vandamálin í kringum sig í æsku þar sem hann ólst upp í hinu svokallaða Rust Belt, sem dreifbýl iðnaðarríki í norð-austur Bandaríkjunum eru gjarnan kölluð. Vance sá örbirgðina í verkamannastéttinni sem hann ólst upp í ekki sem vandamál fátæktar þó, heldur skorts á menningarlegum gildum. Vance er nefnilega með þeim öfgafyllri íhaldsmönnum í Bandaríkjunum hvað það varðar, menningarlega íhaldssemi.
Vance komst á þing árið 2022, þá með gríðarlega róttækri og hatrammri and-þungunarrofs stefnu, ásamt því að vera á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Hann er þó sannur popúlisti hvað það varðar að hann styður mál eins og hækkun lágmarkslauna og myndun verkalýðsfélaga, sem og verndarstefnu í efnahagsmálum, líkt og Trump.
Í raun er það ljóst að hann og Trump eiga margt sameiginlegt, en þrátt fyrir það var Vance einna háværastur af þeim sem mótmæltu framboði Trumps árið 2016. Stefnumál Trumps sagði hann flakka á milli „hins ósiðlega og hins fáránlega“. Trump væri „menningarlegt heróín“ og „ópíóð fjöldans“. Þá sagðist hann aldrei ætla að styðja Trump og sagðist hafa kosið frambjóðanda úr öðrum flokki utan Demókrata og Repúblikana árið 2016. Við kollega sinn skrifaði Vance það árið að hann væri ekki viss um hvort Trump yrði annar Nixon eða „hann er Hitler Bandaríkjanna“.
Hræsnin er því alger, en Vance var strax árið 2018 byrjaður að draga í land og hefur allar götur síðan dásamað Trump. Merkilegt nokk virðist hinn hörundsári Trump ekki erfa þetta við hann þar sem hann hefur tilnefnt Vance sem varaforsetaefni sitt. Talið er að Vance geti aukið fylgi Trumps í áðurnefndum Rust Belt ríkjunum, sem gjarnan hafa sögulega verið hliðhollari Demókrötum. Trump vann þó flest þeirra árið 2016 gegn Hillary Clinton.