Biden segir Bandaríkin „ekki vera í stríði neins staðar í heiminum“

Biden-Address-to-the-nation

Á miðvikudagskvöld (24. júlí) flutti Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarp sem hafði þann tilgang að útskýra fyrir almenningi ákvörðun hans að bjóða sig ekki fram til forseta á næsta kjörtímabili. Í ávarpinu taldi Biden upp það helsta sem hann telur sig hafa afrekað á sínum forsetaferli. Hann fullyrti ranglega að Bandaríkin væru ekki í stríði.

Hvers vegna ákvað Biden að draga framboð sitt til baka?

Það er merkilegt að í ávarpinu gaf Biden ekki neina sérstaka ástæðu fyrir því hvers vegna hann ákvað að draga forsetaframboð sitt til baka. En flestir vita að það er vegna þess að hann er orðinn of gamall fyrir starfið, getur varla talað skýrt lengur, eins og sást skýrt í kappræðunum við Donald Trump þann 27. júní. Einnig í þessu ávarpi þar sem stundum verið erfitt að skilja það sem hann segir.

Hann ýjaði þó að þessari ástæðu í ávarpinu þegar hann talaði um að „afhenda kyndilinn til nýrrar kynslóðar“, að það væri kominn tími „fyrir nýjar raddir, ferskar raddir – já, yngri raddir. Og sá tími er núna.“ Biden hefur lýst yfir stuðningi við Kamölu Harris varaforseta sem forsetaefni Demókrataflokksins í komandi kosningum.

Upphaflega gaf Biden út yfirlýsingu á Twitter, á sunnudag 21. júlí, þar sem hann tilkynnti að hann væri að draga forsetaframboð sitt til baka, og sagði að hann myndi flytja ávarp síðar í vikunni til að útskýra þessa ákvörðun (þ.e.a.s. ávarpið á miðvikudagskvöld).

Margir tóku eftir því að hann lýsti ekki yfir stuðningi við Kamölu Harris í þessari upphaflegu yfirlýsingu. Það var ekki fyrr en um 30 mínútum síðar sem að Twitter-reikningur Biden kom með annað tíst þar sem lýst var yfir stuðningi við Harris:

Sumir hafa bent á hversu óvenjulegt það er að hafa gert þetta í tveimur aðskildum yfirlýsingum. Einnig að hafa fyrst tilkynnt um þetta í tísti á Twitter í staðinn fyrir að tilkynna það beint í sjónvarpsávarpi. Hvers vegna var þetta ekki meira samstillt, þannig að Biden tilkynnti um að draga forsetaframboð sitt til baka og lýsa yfir stuðningi við Kamölu í sömu yfirlýsingu? Hægt er að túlka þetta á ýmsa vegu. Sumir vilja meina að þetta sé vísbending um einhverskonar hik, eða að tilkynningarnar sem voru birtar á Twitter hafi verið settar saman í flýti.

Bandaríkin „ekki í stríði neins staðar í heiminum“

Þau ummæli sem hafa vakið hvað mesta athygli í sjónvarpsávarpi Biden sem hann flutti á miðvikudagskvöld, voru þegar hann var að telja upp afrekin á sínum forsetaferli. En þá sagði hann:

Ég er fyrsti forsetinn á þessari öld sem getur tilkynnt bandarísku þjóðinni að Bandaríkin eru ekki í stríði neins staðar í heiminum.

Þarna er hann væntanlega að vísa til þess að á fyrsta árinu í hans ríkisstjórn drógu Bandaríkin sig til baka frá Afganistan, eftir 20 ára langt stríð þar í landi.

Undanhald Bandaríkjanna frá Afganistan

Það hvernig Bandaríkin drógu sig til baka frá Afganistan árið 2021 hefur aftur á móti verið gagnrýnt verulega. Hvernig það skapaði mikla krísu í landinu, þar sem flóttamenn héngu utan í herflugvélum á flugvellinum í Kabúl, í örvæntingarfullri tilraun til að flýja land (undan ásókn Talíbana), eins og sást á eftirminnilegum myndböndum:

En Talíbanar náðu strax aftur völdum í landinu, Bandaríkin skildu eftir sig gríðarlegt magn af vopnum sem höfðu verið notuð til að byggja upp afganska stjórnarherinn, sem leystist upp nánast samstundis eftir að Bandaríkjaher yfirgaf landið, þrátt fyrir að hafa eytt ótal árum og peningum í að byggja upp þennan stjórnarher sem átti að taka við keflinu.

Þá má einnig benda á að ákvörðunin um að draga Bandaríkin til baka frá Afganistan hafði verið tekin af forvera Biden í embætti, Donald Trump. Það var ríkisstjórn Biden sem sá um að framfylgja þessari ákvörðun sem hafði verið tekin af fyrri ríkisstjórn.

En þrátt fyrir undanhaldið frá Afganistan 2021, þótti mörgum þessi fullyrðing Biden um að Bandaríkin séu núna ekki í stríði neins staðar í heiminum, skjóta ansi skökku við.

Mesta stríðsástand í heiminum í langan tíma

Flestir eru sammála um að ófriður í heiminum hefur aukist verulega á síðustu árum, sem sagt í stjórnartíð Biden. Einkum í Evrópu og Miðausturlöndum, þar sem Úkraínustríðið hefur geisað á hans vakt (síðan í febrúar 2022), og svo átökin sem hófust á Gasa 7. október 2023. Átök sem margir vilja meina að sé þjóðarmorðsherferð Ísrael gegn palestínskum borgurum, sem ríkisstjórn Biden hefur stutt dyggilega við, hefur skaffað vopnin og sprengjurnar sem Ísrael hefur notað til að drepa 40.000 óbreytta borgara á Gasa, mest konur og börn.

Þá vilja margir einnig meina að Bandaríkin séu óbeinn þátttakandi í stríðinu í Úkraínu, að þetta sé proxýstríð sem kjarnorkustórveldin Bandaríkin og Rússland séu að heyja sín á milli. Flestir í heiminum utan Vesturlanda eru allavega sammála um þetta (þ.e.a.s. meirihluti mannkyns sem býr í hnattræna suðrinu, í S-Ameríku, Afríku, Miðausturlöndum og Asíu). Það er bara stríðsóð stjórnmálaelíta á Vesturlöndum sem hefur blekkt sjálfa sig og kjósendur sína um að þetta sé ekki proxýstríð. En það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu, ef maður prófar að bera þetta saman við söguleg fordæmi, eins og proxýstríð Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á tímum kalda stríðsins: t.d. Kóreustríðið, Víetnamstríðið og stríð Sovétríkjanna í Afganistan á 9. áratugnum. Þar sem annað stórveldið var beinn þátttakandi í átökunum með sínu herliði, á meðan hitt stórveldið studdi við stríðandi fylkingar með vopnasendingum og annarskonar beinni aðstoð.

Yfirstandandi stríð Bandaríkjanna í Miðausturlöndum

Á sama tíma og Biden flutti ávarpið, þar sem hann sagði að Bandaríkin væru ekki í stríði neins staðar í heiminum, var bandaríski sjóherinn á Rauðahafi að varpa sprengjum á Jemen.

Bandaríkin hafa stundað það í gegnum tíðina að varpa sprengjum á fátæk lönd í þriðja heiminum, einkum Arabaríki í Miðausturlöndum, og virðast ekki kippa sér mikið upp við það, þ.e.a.s. láta eins og það teljist til stríðsátaka, sem það þó rauverulega gerir.

U.þ.b. hálfri klukkustund áður en Biden flutti ávarp sitt á miðvikudagskvöld tilkynnti Bandaríkjaher í Miðausturlöndum um loftárásir sem beindust gegn Hútum í Jemen:

Síðan í janúar á þessu ári hafa Bandaríkin gert hundruði loftárása á Jemen sem hluti af nýju stríði sem hefur ekki verið lýst yfir af Bandaríkjaþingi (eins og stjórnarskrá Bandaríkjanna kveður þó á um að þurfi að gera til að fara í stríð).

Bandaríkin eru með „carrier task force“ á Rauðahafi til að heyja þetta stríð gegn Hútum í Jemen. Bandarískir flotaforingjar hafa lýst baráttunni við Húta á Rauðahafi sem „mestu sjóorrustu sem Bandaríkin hafa tekið þátt í síðan í seinni heimsstyrjöld.“

Þá hefur Biden einnig fyrirskipað loftárásir í Írak og Sýrlandi, síðan að átökin á Gasa brutust út 7. október. Talsmaður bandaríska sjóhersins sagði í apríl að Bandaríkin hafa eytt 1 milljarði dollara í skotfæri fyrir þennan hernað sinn í Miðausturlöndum síðan í október á síðasta ári.

Bandaríkin hafa einnig verið að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn því sem eftir er af ISIS hryðjuverkasamtökunum í Írak og Sýrlandi. Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Bandaríkjaher að á fyrri hluta árs 2024 hefðu þeir tekið þátt í 196 hernaðaraðgerðum gegn ISIS í Írak og Sýrlandi.

Bandaríkin eru með hersetulið í Sýrlandi, þar sem þeir ráða yfir hluta af austurhluta landsins, en Sýrland hefur verið brotið upp í margar einingar eftir borgarastyrjöldina sem hefur geisað í landinu síðan 2011 (en á tímabili réði ISIS yfir stórum hluta af Sýrlandi). T.d. ræður Tyrkland (sem er aðildarríki NATO) yfir landsvæði í norðurhluta landsins.

Síðan 7. október hafa Bandaríkin einnig verið að berjast við vígasveitir sjía-múslima í Írak, sem fóru að ráðast á bandarískar herstöðvar í landinu eftir að Ísrael hóf sína morðherferð á Gasa. Svipað og Hútar í Jemen fóru að ráðast á skipaflutninga á Rauðahafi og gera drónaárásir á Ísrael.

Bandaríkin hafa gert margar loftárásir á þessar vígasveitir sjía-múslima í Írak, en þessar árásir þeirra hafa reitt stjórnvöld þar í landi til reiði, sem hafa farið fram á að Bandaríkjaher yfirgefi landið. Nú er verið að semja um áframhaldandi viðveru Bandaríkjahers í Írak.

Í janúar féllu þrír bandarískir hermenn í drónaárás á „Tower 22“, en það er leynileg bækistöð Bandaríkjanna í Jórdaníu nálægt landamærum Sýrlands, samkvæmt tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa einnig margsinnis varpað sprengjum á Sómalíu á þessu ári, til að styðja við stjórnvöld í Mógadisjú gegn al-Shabaab samtökunum. Í maí gerðu Bandaríkin loftárás í landinu sem þau sögðu að beindist gegn ISIS þar í landi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí