Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hún fordæmir mótmælendur sem voru að mótmæla ræðu Benjamín Netanjahú á Bandaríkjaþingi á miðvikudag. Fólk kom saman fyrir utan þinghúsið í Washington D.C. til að mótmæla þjóðarmorðinu á Gasa sem Netanjahú er ábyrgur fyrir, og hefur nú staðið yfir í 9 mánuði samfleytt og orðið um 40.000 óbreyttum borgurum að bana, mest konum og börnum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir stuðningi við Kamölu Harris sem frambjóðanda Demókrataflokksins eftir að hann dróg forsetaframboð sitt til baka þann 21. júlí. Frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum í nóvember verður útnefndur á landsfundi Demókrataflokksins í ágúst. Allt bendir til þess að Kamala Harris verði fyrir valinu.
Hún gaf út yfirlýsingu á Twitter þar sem hún fordæmir mótmælendur. Sakar þá um gyðingahatur (antisemitism), að vera „óþjóðræknir“ (unpatriotic), og að styðja við og tengjast hryðjuverkasamtökum (Hamas).
Í yfirlýsingunni sem Kamala Harris sendi frá sér á Twitter segir:
Í gær, á Union Station lestarstöðinni í Washington D.C., urðum við vitni að fyrirlitlegum athöfnum óþjóðrækinna mótmælenda, og hættulegri hatursfullri orðræðu.
Ég fordæmi þá einstaklinga sem tengja sig við hrottalegu hryðjuverkasamtökin Hamas, sem hafa heitið því að tortíma Ísraelsríki og drepa gyðinga. Veggjakrot og orðræða til stuðnings Hamas er viðbjóðsleg/t og við getum ekki liðið svoleiðis í okkar landi.
Ég fordæmi þá sem brenna bandaríska fánann. Þessi fáni er tákn fyrir okkar æðstu hugsjónir sem þjóð og stendur fyrir fyrirheit Ameríku. Fánann má aldrei vanhelga á þennan hátt. Ég styð réttinn til að mótmæla friðsamlega, en höfum eitt á hreinu: það er enginn staður fyrir gyðingaandúð, hatur og ofbeldi í okkar landi.
Kamala Harris var áður ríkissaksóknari í Kaliforníu til margra ára, þar sem hún montaði sig af því að hafa verið „top cop“ og „tough on crime“. Vinstrisinnað fólk hefur áhyggjur af því hversu hægrisinnuð hún er, sérstaklega ef hún á að vera forsetaefni Demókrataflokksins.
Black Lives Matter hreyfingin hefur gefið út yfirlýsingu þar sem gagnrýnt er harðlega hvernig Kamala Harris hefur verið „krýnd“ (anointed) sem forsetaframbjóðandi flokksins á ólýðræðislegan hátt, án þess að nein raunveruleg kosning hafi farið fram. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:
Nú reynir flokkselítan í Demókrataflokknum, og milljarðamæringarnir sem fjármagna hana, að misnota svarta kjósendur með því að krýna Kamala Harris sem forsetaefni flokksins… án prófkjörs þar sem almenningur fær að kjósa frambjóðandann. Svona augljós lítilsvirðing á grundvallarreglum lýðræðisins er óviðunandi. Þó að það væri vissulega sögulegt skref ef Harris verður kosin sem forseti [sem yrði þá fyrsta svarta konan til að gegna forsetaembætti Bandaríkjanna], þá verður ferlið að vera í samræmi við lýðræðisleg gildi. Við höfum ekki hugmynd um hver stefnumál Kamölu Harris eru…