„Eftir síðustu kosningar fannst mér að flokkurinn væri kominn í það ástand, það væri lignari sjór, að ég ákvað að ég skyldi láta gott heita, því alveg frá fyrsta degi, þá áttaði ég mig á því ég var kannski ekki svarið til lengri tíma fyrir þennan flokk, en ég ætla að vera svo brattur að segja að ég held að ég hafi verið hárrétti maðurinn til að taka við flokknum í þessari stöðu.“
Þetta segir Logi Már Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, í viðtali við fastan lið við Rauða borðið, Þingið. Í viðtali sem sýnt verður í kvöld ræðir hann pólitískan samtíma og sögu flokksins frá því að Vinstri stjórnin var við völd eftir hrun. Þar kemur hann nokkuð við sögu enda verður hann formaður flokksins eftir líklega eina mestu niðurlægingu hans, þegar hann rétt svo tekst að skríða inn á þing með einugis þrjá þingmenn.
Logi útskýrir fyrr í þessu sama viðtali hvers vegna hann hafi verið rétti maðurin í verkið. „Svona flokkur er ekki tryggur með tilveru sína. Þannig að fyrstu viðbrögðin voru bara að troða marvaða. Fyrst þú nefnir að ég hafi reynt að vera léttur og kátur á þessum tíma, þá er það ekkert leyndarmál að stór hluti af mínu verkefni var hreinlega að skapa gott andrúmsloft og byggja aftur upp.“
Settla stríðandi fylkingar?
„Já og byggja aftur upp góðan anda í flokknum, það voru mjög margir farnir, mikið af lykilfólki sem hvarf og kaus og kannski ekki, veit það ekki. Ég notaði töluvert af tíma þarna strax á eftir til að tala við það fólk sem ég taldi mikilvægt, ég get nefnt Guðrúnu Ögmundsdóttur til dæmis, að fá hana til baka,“segir Logi.