Þótt Alþingi komi ekki saman fyrr en langt verður liðið á janúar má nú þegar greina ákafan og jafmvel stressaðan tón innan meirihluta stjórnarandstöðunnar.
Þannig hefur hræðsluáróður verið einkennandi meðal þeirra þingmanna sem eru vanir að fara með völdin en eru nú í minnihluta eftir að Valkyrjur tóku við. Elstu menn muna ekki annan eins ofsa og heltók Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag. Hálfur Kryddsíldarþátturinn snerist upp í stagl og ofsa Bjarna vegna fyrirhugaðra breytinga nýrrar ríkisstjórnar sem varða gjaldheimtu í sjávarútvegi.
Í Mogganum í dag slæst svo Þórarinn Ingi Pétursson sem kemur úr Framsóknarflokknum í grátkórinn með Bjarna og eru það auðlindagjöldin sem hræða þá saman.
Þórarinn Ingi keyrði sjálfur sem nefndarformaður á Alþingi breytingar í gegn á búvörulögum sem hafa verið dæmdar sem stjórnarskrárbrot. Nú varar þingmaðurinn mjög við að hróflað verði við forréttindum útgerðarmanna.
Ragnar Þór Ingólfsson, sem var formaður VR þegar málið kom upp, var í hópi þeirra sem gagnrýndu nálgun Þórarins Inga á afurðamálin harðlega. Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri KS hefur notið mjög góðs af lögleysunni.
„Það gleymist oft að íslenskur sjávarútvegur er hátækniiðnaður sem hefur borið íslenskt hagkerfi uppi í logni og stormi í gegnum tíðina,“ skrifar Þórarinn Ingi í Moggann í dag.
Hið rétta er að íslenskt hagkerfi hefur lengst af verið sveigt að sjávarútvegi en ekki öfugt.
Almenningur sætti sig áður við þegar dreift eignarhald var við lýði, að útgerðarmenn gætu með einu símtali til ráðherra heimtað 10 prósenta gengisfellingu daginn eftir.
En nú þegar aðeins um 20 fjölskyldur maka krókinn að mestu leyti og gjafakvótar, hlægilega lág veiðigjöld og framsalsmál eru helstu réttlætismál almennings, segir sig sjálft að hræðsluáróður og varðstöðupistlar mæta öðrum viðbrögðum í dag en meðan sátt var um sjávarútveg.