Biturð, undrun og reiði ríkir meðal sumra Sunnlendinga að sögn íbúa eftir að tvö þorrablót í héraðinu enduðu illa um liðna helgi. Ásakanir eru uppi um að fyrirtækið sem bauð upp á þorramatinn á báðum blótunum hefði mátt vita betur þegar seinna blótið fór fram um að maturinn kynni að vera skemmdur.
„Hann vissi af þessu þegar þetta er borið ofan í okkur og hann lét okkur ekki vita af því,“ hefur mbl.is eftir Freyju Mjöll Magnúsdóttur, sem situr í þorrablótsnefndinni í Þorlákshöfn. Freyja lætur þessi orð falla um veitingamanninn Árna Bergþór Hafdal Bjarnason, sem sá um veitingarnar á blótinu.
Heimildamenn Samstöðvarinnar segja málið viðkvæmt og óskemmtilegt.
Um helgina sögðu fjölmiðlar frá því að tugir gesta hefðu veikst eftir þorrablót í Grímsnesi á föstudag. Daginn eftir, á þorrablóti í Þorlákshöfn, endurtók sagan sig. Árni, eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, útvegaði veitingarnar á báðum blótunum eftir því sem fram hefur komið en Árna og Freyju greinir á um hvort Árni hafi upplýst fyrir síðara blótið að maðkur kynni að vera í mysunni eða öllu heldur í matartrogunum.
Freyja telur grunsamlegt að í gær, sunnudag, hafi Árni haft samband til að kanna hvort allt væri í lagi. Freyja telur að honum hefði borið um leið og hann vissi af veikndunum eftir fyrra blótið að láta vita af grunsemdum. Hefði Árni með því getað komið í veg fyrir veikindi fjölmargra.
Einn viðmælandi sem ekki vill láta nafns síns getið segir að Veisluþjónusta Suðurlands hafi verið í erfiðri stöðu, kurl hafi ekki verið komin til grafar hvað varðar eitrunina þegar seinna blót helgarinnar var haldið í héraðinu.
Málið er á borði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Þeir sem hafa veikst af matareitrun eftir þessi mannamót eru beðnir um að láta heilbrigðiseftirlitið vita.