![](https://samstodin.is/wp-content/uploads/2025/02/Screenshot-2025-02-14-at-10.18.12.png?v=1739528629)
„Þetta hljómar fallega. En þetta eru skelfileg tíðindi. Þarna er einfaldlega verið að stíga stórt skref í átt að einkavæðingu ríkisfyrirtæka. Ef það er klippt á tengsl stjórnmálaflokkanna, sem eiga lýðræðislega kjörna fulltrúa á Alþingi, við stjórnir þessara samfélagslegu mikilvægu fyrirtækja þá minnkar lýðræðislegt aðhald með rekstri þeirra og stefnumörkun. Fyrirtækin og stjórnir þeirra verða einskonar ábyrgðarlaus eylönd. Ég held það þurfi enginn að ganga að því gruflandi hvað „hæfni“ þýðir í hugum hægrifólks. Það þýðir bara „fólk sem hugsar eins og við“, annað hægrifólk, og á endanum mun þetta hægrifólk í stjórnum þessara fyrirtækja fara leynt og ljóst að vinna að því að koma þeim á markað, því það er það sem það trúir á,“ skrifar Stefán Bogi Sveinsson.
„Það er sérstaklega nöturlegt að hugsa til þess að þetta sé kynnt til sögunnar af ráðherranum sem Viðreisn treysti einhvern veginn ekki til að senda inn í kosningabaráttu, þar sem hægt væri að takast á við hann á pólitískum forsendum, en skákaði síðan inn í valdamesta ráðherraembætti stjórnkerfisins. Ég hef miklar mætur á sumum fulltrúum Viðreisnar á þingi og í ríkisstjórn. En það má aldrei gleyma því að Viðreisn er hreinn og klár hægriflokkur. Hann er kannski þekkilegri ásýndar og að mörgu leyti betur þenkjandi en Sjálfstæðisflokkurinn. En hægriflokkur er hann og hann mun láta sér vel líka að öll þessi fyrirtæki endi í höndum einkaaðila áður en yfir lýkur.“