(fréttaskýring)
Ef miðað er við orðræðu fjölda fólks sem tjáð hefur sig á Internetinu síðustu daga hafa æ fleiri landsmenn komist að þeirri niðurstöðu að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi gert alvarleg mistök með birtingu ónákvæmrar fréttar um Ástu Lóu Þórsdóttur barnamálaráðherra sem sagði af sér ráðherradómi fyrir rúmri viku, þegar hún vissi að Rúv ætlaði að birta frétt um málið.
Ásta Lóa hefur ekki treyst sér til að gegna þingmennsku síðan Rúv lýsti í frétt sinni áratuga gömlu sambandi hennar með 16 ára manni sem gat af sér ávöxt, það er barn. Ásta Lóa sagði af sér, sendi frá sér greinargerð en gaf ekki kost á viðtali eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum. Hún laumaði sér bakdyramegin út eftir fundinn. Heimildarmenn Samstöðvarinnar, fólk sem þekkir vel til Ástu Lóu, segir hana enn mjög miður sín.

Ráðherrar eru í hópi opinberra persóna sem þurfa að þola að fjölmiðlar fjalli um mál er þá varða sem ekki yrði fjallað um ef um væri að ræða fulltrúa almennings.
Gagnrýnin umfjöllun um pólitísk fyrirmenni getur varðað miklu um traust milli almennings og þjóðkjörinna fulltrúa. Ríkisútvarpið hefur hins vegar síðari ár ekki verið þekkt fyrir að veita æðstu ráðamönnum þjóðarinnar mjög mikið aðhald. Má nefna meinta linkind í efnistökum Rúv gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Á valdaferli Bjarna varð til urmull afsagnarmála sem mörgum hefur þótt sem Rúv hafi fremur þyrlað ryki yfir – fremur en að fréttamenn hafi svitnað við að moka flórinn.

Margir spyrja um samræmi, hvort kannski hafi verið gerður mannamunur eftir sauðahúsi og bakgrunni einstaklinga innan fréttastofu Rúv. Hvort fréttin um Ástu Lóu hefði verið sögð ef ráðherrann fyrrverandi hefði verið fulltrúi gömlu valdaflokkanna?
Þá hefur Ríkisútvarpið þótt minna á slúðurmiðil (tabloid) í málinu, sem er ekki það sem fréttastofa almannaútvarpsins hefur verið þekkt fyrir. Í fyrstu frétt Rúv mátti ráða að Ásta Lóa hefði misnotað unga manninn vegna æsku og yfirburðastöðu sem fólst í aldursmun. Þá hefði hún tálmað umgengni. Eitt af því fáa sem í raun er hafið yfir vafa af efnisatriðum er að Rúv sagði frá óheppilegum og örvæntingarfullum viðbrögðum ráðherrans til að komast í samband við konu sem er illa við Ástu Lóu vegna fortíðar hennar og sendi forsætisráðuneytinu erindi um þann gamla farangur og vildi funda.
Fréttamenn Rúv hafa sjálfir í opinberri umræðu ítrekað borið því við að fréttin hafi ekki haft áhrif á þá ákvörðun Ástu Lóu að segja af sér. Hún hafi tekið ákvörðun um það á fundi með oddvitum stjórnarflokkanna þriggja áður en hún fór upp í Efstaleiti og hitti fréttamann Rúv sem birti fyrstu frétt af málinu áður en viðtalið var tekið.

Hins vegar bendir flest til þess að það hafi ekki verið fyrr en Ásta Lóa vissi að von var á frétt frá Rúv sem hún treysti sér ekki lengur til að halda áfram sem ráðherra.
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur telur að Ásta Lóa gæti höfðað mál á hendur Rúv og krafist fordæmalausra bóta, enda sé hún nú sá íslenski einstaklingur sem þekktust er í heiminum fyrir barnaníð að ósekju. Vitnar Haukur þar til þess að stærstu fjölmiðlar heims sumir hverjir tóku frétt Rúv upp og máluðu Ástu Lóu upp sem skaðvald, vegna fyrstu fréttar Rúv. Sagan af siðlausu manneskjunni sem ætla mátti að hefði framið lögbrot var sú mest lesna á vef BBC um tíma.
Inn í þetta mál spilar ennfremur margskonar nálægðarvandi og ýmsar áskoranir sem felast í því þegar gagnrýnin fréttamennska rekst á tilfinningar fólks. Má ætla að lætin í málinu væru mun minni en þau eru ef ekki væri um að ræða almannaútvarpið.
Samstöðin óskaði í vikunni eftir viðtali við Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóra Rúv. Samstöðin gat þess að krafa um afsögn fréttastjórans vegna meintra alvarlegra mistaka fréttastofunnar, þar sem ýmislegt sem fram kom í fyrstu fréttinni reyndist ekki veruleikanum samkvæmt, væri fyrirhugað efni viðtalsins.
Fréttastjórinn hafnaði að mæta í viðtal. Hann sagðist ekki vilja koma á þeim forsendum.
Þegar blaðamaður Samstöðvarinnar gerði athugasemd við að fréttastjórinn vildi sjálfur ráða forsendum viðtalsins, sem kynni að vera til marks um einn vanda Ríkisútvarpsins, tók Heiðar Örn saman nokkra punkta og sendi Samstöðinni.
Síðan hefur fréttastjórinn Heiðar Örn ritað grein sjálfum sér og kollegum til varnar þar sem hann lýsir viðbrögðum óánægðra Íslendinga við fréttamennsku Rúv sem einhvers konar lýðræðisógn.
Rifja má upp að þegar ljósmyndari á vegum Rúv var staðinn að því að brjótast inn í hús í Grindavík kom fram krafa um afsögn starfsmannsins en Rúv sinnti því ekki í neinu tilliti. Á sama tíma og fréttamenn fréttastofu Rúv reka iðulega hljóðnema upp í annað fólk til að spyrja um afsagnir þess – á grunni þess að endurheimta traust. Hefur því verið haldið fram að trúverðugleiki fréttastofu sé undir.
Einar Steingrímsson stærðfræðingur skrifar grein á Vísi í dag og segir af Fréttastofa RÚV hafi „misnotað aðstöðu sína herfilega“ síðustu vikuna, síðan hún birti það sem Einar kallar falsfrétt um Ásthildi Lóu, þá barnamálaráðherra. Misnotkunin felst að dómi Einars í löngu drottningarviðtali við fréttakonuna, Sunnu Karen Sigþórsdóttur, sem var skrifuð fyrir upphaflegu fréttinni en síðan hefur Helgi Seljan fréttamaður sagt að hann hafi verið Sunnu Karen til aðstoðar. Þá var eins og Einar bendir á splæst í Silfur á mánudagsklvöldið undir stjórn Sigríðar Hagalín þar sem Rúvarar „handvöldu í þáttinn til að passa að þau gætu áfram stjórnað umræðunni um sig“ eins og Einar kallar það. Hann segir svo að gengið hafi um þverbak þegar fréttastjóri Rúv hafi reynt í grein á Vísi að „hvítþvo falsfréttaflutning sinn“ eins og Einar, landskunnur þjóðmálarýnir, orðar það.
„Ef Heiðar Örn hefði einhverja sómakennd, eða virti bara siðareglur blaðamanna, hefði hann strax, um leið og bent var á það sem var óverjandi í þessum fréttaflutningi (sem aldrei átti neitt erindi við almenning), birt afsökunarbeiðni, útskýrt vandlega í hverju fréttastofa RÚV brást, og látið setja áberandi leiðréttingu í allar fréttir RÚV um málið. Það gerði hann ekki, og því hefði útvarpsstjóri, Stefán Eiríksson, átt að reka Heiðar Örn. Og af því að Stefán gerði það ekki hefði stjórn RÚV átt að reka Stefán á fundi sínum í gær,“ skrifar Einar.
Hann skrifar einnig: „Fólk eins og Logi Einarsson ráðherra virðist halda að það sé að verja RÚV með því að verja stjórnendur þess. En það er misskilningur. Til að verja RÚV þarf einmitt að reka fréttstjórann og útvarpsstjórann, fyrir að hafa ekkert gert í því að RÚV útvarpaði sóðalegu og grafalvarlegu rusli.“
Það má því segja að mjög blási um fréttastofu Rúv en til að gæta sanngirni skal á það bent að nokkur fjöldi landsmanna telur ekkert athugavert við fréttamennsku Rúv.
En með sama hætti og Ásta Lóa mat það svo að hún yrði að víkja til að starfsfriður yrði áfram inni í ríkisstjórninni, mætti spyrja hvort Heiðar Örn Sigurfinnsson myndi gera best með því að víkja, úr því sem komið er. Til að verja starfsfrið innan fréttastofu Rúv og endurreisa laskað traust milli stórs hluta þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins.
Björn Þorláksson