Íslensk fjölmiðlun rær lífróður. Sú staðreynd var í brennidepli í þættinum Rauða borðið á Samstöðinni í vikunni, þar sem reynslumikið fjölmiðlafólk ræddi stöðu greinarinnar í aðdraganda maraþonútsendingar sem stöðin stendur fyrir um helgina. Markmið átaksins er að setja Íslandsmet í samfelldri útsendingu og tryggja reksturinn með því að safna að minnsta kosti 300 nýjum áskrifendum. „Erum við að því til að bjarga lífi okkar? Já, í raun erum við að því,“ sagði Björn Þorláksson, stjórnandi þáttarins, og lýsti umhverfi þar sem fjölmiðlar „hafi fallið eins og flugur“.
Tilefni umræðunnar var áskriftarsöfnun Alþýðufélagsins, eiganda Samstöðvarinnar, en Björn setti átakið í samhengi við almenna hnignun í fjölmiðlarekstri. „Samstöðin rær lífróður, getur maður sagt,“ sagði hann og minnti á þá miðla sem þegar hafa horfið: „Fréttablaðið fór, Hringbraut fór. Maður heyrir að fleiri íslenskir fjölmiðlar séu núna að berjast í bökkum“.
Gestirnir, þau Björg Eva Erlendsdóttir, Atli Þór Fanndal og Óðinn Jónsson, tóku undir þungar áhyggjur Björns. „Mér líst mjög illa á það ef að fjölmiðlum fækkar frá því sem er og það held ég að öllum lítist illa á,“ sagði Björg Eva. Hún benti á að jafnvel nýir og metnaðarfullir miðlar eins og Heimildin stæðu ekki traustum fótum. „Samstöðin hefur sérstöðu alveg eins og Heimildin hefur líka haft sérstöðu, sem ég heyri að standi heldur ekkert of vel,“ sagði hún.
Óðinn, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins, lýsti fækkun starfsfólks í greininni sem „mjög brattri“ og bætti við: „Það er engin ráðinn fyrir þá sem hætta í starfi, svo maður segi það“.
Atli Þór tók í sama streng og sagði að það væri „verulega að þrengjast að fjölmiðlum. Þeim fækkar og líka hugmyndaheimur þeirra er að minnka“. Hann lagði áherslu á að vandinn væri ekki nýr af nálinni. „Við erum búin að vita af þessum vanda í langan tíma. Það er hnignun og það eru ákveðnir hlutir sem gera það að verkum að það er erfitt að reka fjölmiðla á Íslandi,“ sagði Atli Þór.
Alvarleiki stöðunnar birtist þó einna skýrast í persónulegri lýsingu Björns á óvissunni sem starfsfólk á einkareknum miðlum býr við. „Það er raunverulega ekki víst að við sem erum að starfa í einkageiranum í fjölmiðlunum á Íslandi fáum greidd laun um næstu mánaðamót og það er ekki víst að fjölmiðillinn okkar verði á lífi eftir nokkra daga,“ sagði hann.